Innlent

Lögreglumenn telja botninum náð varðandi manneklu í faginu

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Lögreglumenn lýsa yfir áhyggjum af ráðningarmálum innan lögreglunnar. Stöður lögreglumanna séu æ sjaldnar auglýstar.
Lögreglumenn lýsa yfir áhyggjum af ráðningarmálum innan lögreglunnar. Stöður lögreglumanna séu æ sjaldnar auglýstar. Vísir/Vilhelm
„Ár eftir ár telja lögreglumenn að botninum sé náð en samt dýpkar holan. Lögreglumönnum hefur fækkað verulega undanfarin ár,“ segir í ályktun þings Landssambands lögreglumanna sem var haldið í vikunni.

Á þingi sambandsins sem er haldið annað hvert ár koma lögreglumenn alls staðar að af landinu til að þinga um starfsumhverfi og kjör. Yfirskrift þingsins var: Löggæsla á brauðfótum, sem endurspeglar áhyggjur lögreglumanna af manneklu. Tekin er fram sú staðreynd að árið 2007 var fjöldi lögreglumanna á Íslandi 712, árið 2016 er fjöldi þeirra 653 en samkvæmt skýrslum ríkislögreglustjóra hefði fjöldi lögreglumanna á Íslandi átt að vera að lágmarki 840.

Þingið ályktaði einnig um menntunarmál lögreglumanna og telur til góðs að færa lögreglunám á háskólastig og lengja námið en verra að áformin hægja á endurnýjun í stéttinni. „Það að leggja niður Lögregluskólann í núverandi mynd er galið á meðan fyrsti árgangur lögreglumannsefna er í hinu nýja námi. Þrjú ár án endurnýjunar í stéttinni gengur einfaldlega ekki upp,“ segir í ályktuninni og er þess krafist að þeim lögreglumönnum sem þar starfa verði tryggt starf innan lögreglu, við kennslu lögreglufræða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×