Skoðun

Lögreglumenn slasast oftar en aðrir

Guðmundur Kjerúlf skrifar
Í kreppunni um og eftir 2009 varð mikill samdráttur hjá mörgum stofnunum á Íslandi. Starfsfólki fækkaði og dregið var úr fjárfestingum í húsnæði, búnaði, tækjum og viðhaldi. Á sama tíma dró ekki úr verkefnum hjá mörgum, verkefni jukust jafnvel. Aukið álag eykur hættuna á slysum og fátt veldur meira álagi en að geta orðið fyrir slysi.

Á árunum 2005 til 2009 voru starfandi tæplega 700 lögreglumenn á landinu en þeir voru um 650 á árunum 2010-2016. Færa má rök fyrir því að álag á lögregluna hafi aukist síðustu ár m.a. vegna þess að ferðamönnum hefur fjölgað mikið. Árið 2005 komu tæplega 400 þúsund ferðamenn til landsins en þeir voru 1,8 milljónir 2016.

Fyrir hrunið 2008 var algengast að starfsfólk í byggingariðnaði og fiskvinnslu slasaðist. Á árunum eftir hrun er lang algengast að lögreglumenn slasist. Um það bil sjötti hver lögreglumaður verður fyrir tilkynningarskyldu vinnuslysi árlega en tuttugasti og fimmti hver starfsmaður í fiskvinnslu og áttugasti hver í byggingariðnaði.

Algengasta orsök vinnuslysa hjá lögreglunni er meðhöndlun og samskipti við fólk. Við mörg verkefni lögreglunnar skiptir fjöldi starfsmanna miklu máli en einnig aldur, kyn, reynsla og þjálfun. Slysum á lögreglumönnum hefur fjölgað síðustu ár en Vinnueftirlitið hefur einnig veitt því athygli að slys á lögreglumönnum eru oft alvarleg.

Það blasir við að lögreglan þarf aukið fjármagn og fleira starfsfólk en það leysir ekki allt. Vinnuslys lögreglumanna eru alls ekki einkavandi lögreglunnar. Það er mikilvægt að viðurkenna vandann og greina ítarlega hvar og hvers vegna lögreglumenn slasast. Með samræmdum og markvissum aðgerðum stjórnvalda, lögreglunnar, Vinnueftirlitsins og landsmanna allra má koma í veg fyrir flest vinnuslys hjá lögreglunni.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×