Erlent

Lögreglumaðurinn sem fórnaði sér berst fyrir lífi sínu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi í matvöruversluninni í dag.
Frá vettvangi í matvöruversluninni í dag. vísir/EPA
Franskur lögreglumaður sem bauð sjálfan sig í skiptum fyrir gísla í gíslatöku í matvöruverslun í bænum Trebes í Suður-Frakklandi í dag berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi.

Lögreglumaðurinn var skotinn af gíslatökumanninum og særðist alvarlega en þrír létust og sextán særðust, þar af tveir alvarlega, í þremur árásum mannsins að því er fram kemur í frétt Guardian.

Árásarmaðurinn, Redouane Lakdim, tók gísla í matvöruversluninni en allt að fimmtíu voru þar inni þegar Lakdim kom þangað inn samkvæmt frétt Le Monde. Hann hóf skothríð og myrti einn starfsmann verslunarinnar og einn viðskiptavin.

Þegar lögreglumenn gerðu tilraun til þess að rýma matvöruverslunina komust þeir að því að Lakdim hafði tekið nokkra gísla þar inni. Einn lögreglumannanna, Arnaud Beltrame, bauð þá sjálfan sig í skiptum fyrir gíslana.

Árásarmaðurinn samþykkti skiptin og beið Beltrame með honum á meðan verið var að rýma verslunina. Lögreglumaðurinn var með kveikt á farsímanum sínum svo að lögreglumennirnir fyrir utan gætu heyrt það sem fram fór inni í matvöruversluninni.

Þegar þeir heyrðu skotum hleypt af inni í versluninni ruddust þeir þar inn og skutu Lakdim til bana. Lögreglumennirnir komu síðan að kollega sínum alvarlega særðum en honum verið lýst sem hetju fyrir að fórna sér í þetta verkefni.

 

Hryðjuverkasamtökin hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni en Lakdim setti fram þá kröfu að Salah Abdeslam, sem er í haldi grunaður um aðild að hryðjuverkaárásunum í París í nóvember 2015, yrði látinn laus. Hann er í einangrun í fangelsi í Frakklandi.

Innanríkisráðuneyti Frakklands hefur sagt að Lakdim hafi verið einn að verki í árásum sínum í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×