Innlent

Lögregluforingjar á hóteli á meðan undirmennirnir vörðu Alþingishúsið

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
„Endurkast var frá vegg Alþingishússins og við vorum farnir að finna til óþæginda á bakhluta líkamans vegna grjótkasts og svo má ekki gleyma þeim sprengjum sem sprungu í kringum okkur,“ lýsir lögreglumaður.
„Endurkast var frá vegg Alþingishússins og við vorum farnir að finna til óþæginda á bakhluta líkamans vegna grjótkasts og svo má ekki gleyma þeim sprengjum sem sprungu í kringum okkur,“ lýsir lögreglumaður. Fréttablaðið/Vilhelm
Harka í mótmælaaðgerðum eftir hrunið hafði verið stigvaxandi þegar kom að mótmælum við setningu Alþingis þriðjudaginn 20. janúar 2009. Mótmælafundur var þá á Austurvelli og hópur manna fór inn í Alþingisgarðinn þar sem rúða var brotin. Barið var á glugga hússins.

Þingsetningin var klukkan eitt og upp úr hálf tvö var sérsveit lögreglunnar beðin að vera til taks með gas. Aðgerðastjórn gaf lögreglumönnum leyfi til að beita kylfum á þá sem ekki færu að fyrirmælum. Reykbombum var hent að lögreglunni. Þetta kemur fram í skýrslu sem Geir Jón Þórisson, þáverandi yfirlögregluþjónn, tók saman um aðgerðir lögreglu vegna mótmæla á árunum 2008 til 2011. Skýrslan var opinberuð eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók undir kröfu Evu Hauksdóttur þess efnis.

Blikur á Lofti Að kvöldi þingsetningardagsins 20. janúar 2009 var loftið lævi blandið á Austurvelli í Reykjavík.Fréttablaðið/Anton
Þingmenn í gluggum

Í skýrslunni kemur fram að fólk sem var handtekið þingsetningardaginn hafi verið geymt í glerskála Alþingis. Einnig að lögregla hafi sérstaklega beðið um að alþingismenn héldu sig frá gluggum þinghússins því það virtist æsa upp mótmælendur. Ítrekaðar athugasemdir við framgöngu þingmanna í mótmælunum eru í skýrslunni. Eru þar liðsmenn Vinstri grænna helst nefndir, þá sérstaklega Álfheiður Ingadóttir og Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður VG.

Um klukkan hálf fjögur um daginn höfðu um tuttugu manns verið handteknir en ekki var enn unnt að koma þeim frá þinghúsinu.

„Svo virtist sem mótmælendur hefðu ætíð vitneskju um áætlanir lögreglunnar. Í hvert skipti sem kallað var í talstöð varðandi mögulegar útgönguleiðir færðu mótmælendur sig til og fylktu sér á þann stað þar sem lögreglumenn ætluðu að taka hina handteknu út,“ segir Geir Jón í skýrslunni. Loks tókst að flytja þá handteknu á brott frá einu húsa Alþingis við Kirkjustræti.

Óvenju herskáir mótmælendur

Nokkru fyrir klukkan sjö voru þingmenn og ráðherrar teknir að tínast frá þinghúsinu og þurftu þeir aðstoð lögreglu til að komast leiðar sinnar. Utan við húsið var byrjað að hlaða upp bálkesti.

Um klukkan níu um kvöldið taldi lögregla að allt að eitt þúsund manns væri á staðnum. Kallað var eftir aðstoð frá Suðurnesjum. Eins var lögreglan á Akureyri og á Selfossi beðin um að kalla saman aðgerðaflokka.

„Klukkan 23.53 sást hvar mótmælendur klipptu á víra sem héldu Óslóartrénu og brutu það niður og settu á eldinn,“ segir um framvinduna. „Haft var samband við borgarstarfsmenn um að þeir fjarlægðu jólatréð á Ingólfstorgi svo það yrði ekki eldinum að bráð og fóru þeir í að taka það niður.“

Það var ekki fyrr en klukkan fimm um morguninn sem lögregla var farin af vettvangi.

„Mótmælendur voru óvenju herskáir, miklu herskárri en áður, og því þurfti að beita piparúða, og í einstaka tilfellum kylfum, svo lögreglan gæti haldið aftur af þeim sem verst létu,“ segir Geir Jón um atburði dagsins.

Mótmælendur hentu alls kyns matvælum að Alþingishúsinu þar sem lögreglumenn stóðu vaktina.Fréttablaðið/Vilhelm
Yfirmennirnir uppi í Hvalfirði

Geir Jón segir að vitað hafi verið að yfirlögregluþjónn almennrar löggæslu, ásamt aðstoðaryfirlögregluþjónum þeirrar deildar, yrðu á hefðbundnum ársfundi á Hótel Glym í Hvalfirði þennan dag og fram að hádegi næsta dag.

„Sú spurning var borin upp við SE [Stefán Eiríksson] lögreglustjóra, hvort ekki væri rétt að hætta við þennan fund vegna þingsetningarinnar og væntanlegra mótmæla. Ákvörðun hans var að halda þennan fund, enda nægur fjöldi stjórnenda til staðar hjá LRH [Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu] til að stjórna aðgerðum,“ segir Geir Jón um þetta.

Þeir lögreglumenn sem voru á staðnum þennan dag og gefa í skýrslunni umsagnir um aðgerðirnar eru gagnrýnir á fjarveru yfirmannanna.

„Óþolinmæði var komin fram í hópum um hve aðgerðarleysi lögreglu var algjört og ekki batnaði það þegar [þær] upplýsingar komu til okkar að þeir yfirmenn lögreglunnar sem voru á fundi á Glymi í Hvalfirði myndu ekki koma í bæinn, en ítrekað kom fram hjá mönnum hvernig þeim hefði dottið í hug að halda fund utanbæjar á þessum degi í hópi þeirra sem voru utandyra,“ segir í umsögn lögreglumanns sem var settur í hlutverk varðstjóra þar sem varðstjórinn þurfti að taka að sér hlutverk aðalvarðstjórans sem var ásamt fleiri stjórnendum lögreglunnar uppi í Hvalfirði.

„Þá tók hið óbærilega við“

Lýsingar lögreglumanna á vettvangi þennan dag bera vott um hversu nærri atburðirnir gengu þeim. „Reglulega gerðist múgurinn ágengur við lögreglu, okkur fannst sem að hann yrði æstari eftir því sem þingmenn héngu á gluggum þinghússins en þeir áttu erfitt með að hlýða fyrirmælum lögreglu um að halda sig frá gluggum að minnsta kosti sumir hverjir,“ lýsir þessi lögreglumaður sem var einn þeirra sem vaktaði þá sem voru handteknir og erfiðlega reyndist að koma frá þinghúsinu.

„Þegar fyrstu einstaklingarnir úr hópi mótmælenda komu fyrir hornið þá tók hið óbærilega við, það er að ég þurfti að nota kylfu í fyrsta skipti á starfsferlinum. Þessi einstaklingur fékk tvö til þrjú högg og þá hörfaði hann, mér fannst í fyrstu að ég hefði beitt ofbeldi gagnvart þessum manni en þá komu skipanir um að verja bílalestina og við áttum að koma henni sem fyrst af vettvangi, við þurftum að ýta fólki frá og berja með kylfum, mér sjálfum leið ömurlega en mér varð fljótlega ljóst að þetta var hlutverk sem mér hafði verið falið að gera og ef til vill valið.“

Þegar varðstöðunni lauk loks kveðst þessi lögreglumaður hafa verið orðinn mjög þreyttur. „Öskur, sprengjuregn og trommusláttur hljómuðu í höfði mínu með taktföstum hætt.“ Þessa nótt svaf hann nokkrar klukkustundir undir teppi á júdódýnu á lögreglustöðinni.

Heyrðu ekkert nema öskrin

Annar lögreglumaður, sem stýrði hópi á vettvangi, segir að fram eftir degi og fram á kvöld hafi rignt yfir þá alls kyns drasli, grjóti, matvöru, málningu og glerflöskum.

„Ég var staddur með minn flokk austan megin við gamla aðalinngang þinghússins. Fram eftir kvöldi heyrði maður ekkert nema öskrin og sönglið (vanhæf ríkisstjórn) auk brothljóða fyrir aftan mann þar sem annaðhvort glerflöskur splundruðust á steinveggjum Alþingis eða rúður í húsinu gáfu sig.“

Ljóst er af framburði lögreglumannanna að þeir telja að einhverjir innan veggja Alþingishússins hafi lekið upplýsingum úr talstöðvarkerfi lögreglunnar í mótmælendur utan dyra. Mátt hefði skipta eftir þingflokkum hversu velkomnir lögreglumennirnir væru í þinghúsinu.

Ekki val heldur skylda

„Þótti mér það persónulega leiðinlegt viðmót þar sem ekki var það val okkar að vera þarna heldur skylda. Skylda okkar við að verja Alþingi og uppfylla það drengskaparheit sem við lögreglumenn höfum allir svarið.“

Lögreglumaðurinn ræðir eldana sem kveiktir voru á Austurvelli þetta kvöld.

„Urðu ýmsir munir þá eldi að bráð, til dæmis garðbekkir og að lokum blessað Óslóarjólatréð. Þar sem slökkvilið treysti sér ekki til að fara inn á meðal mótmælenda fóru lögreglumenn í flokkum fram og slökktu þessa elda jafnóðum með handslökkvitækjum. Svona gekk þetta fram og aftur fram á nótt, eldar kveiktir og við slökktum.“

Þegar allt var um garð gengið, í bili, stóðu þreyttir lögreglumennirnir einir eftir.

„Að mínu mati hálf ringlaðir og brugðið yfir þeirri heift sem hafði brotist þarna fram hjá almennum mótmælendum og fyrst og fremst bitnaði á okkur, einstaklingum sem vorum þarna til að gera skyldu okkar við land og þjóð.“

Heimsatburður við Stjórnarráðið

Klukkan átta um morguninn voru yfirmennirnir komnir til Reykjavíkur. Þá tók við nýr dagur harðra átaka milli mótmælenda og lögreglu sem endaði með óvæntum hætti við Stjórnaráðshúsið um klukkan tvö aðfaranótt næsta dags.

„Þegar atgangur mótmælenda var sem mestur, kastandi grjóti og öðru á lögreglumenn og stjórnarráðið, gerðist það að nokkrir úr hópi mótmælenda tóku sig út úr hópnum og mynduðu línu fyrir framan lögreglumennina. Þeir hvöttu félaga sína til að hætta að grýta lögregluna, þar sem hún væri ekki í neinu stríði við mótmælendur, heldur að verja eigur ríkisins. Við þetta hætti algjörlega allt grjótkast og algjör viðsnúningur varð í öllu atferli mótmælenda eftir þetta. Þetta vakti mikla undrun og eins ánægju lögreglumanna,“ lýsir Geir Jón þessum atburði sem hann telur stórmerkan:

„Þetta kom öllum á óvart og má segja að hér hafi átt sér stað heimsatburður þar sem ekki er vitað til þess að neitt erlent lögreglulið hafi upplifað neitt þessu líkt, í tengslum við mótmæli af þessum toga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×