Innlent

Lögreglu borist fjölmargar ábendingar

Snærós Sindradóttir skrifar
Birna var að skemmta sér á Húrra en yfirgaf staðinn um klukkan fimm aðfaranótt laugardags.
Birna var að skemmta sér á Húrra en yfirgaf staðinn um klukkan fimm aðfaranótt laugardags. Vísir
Lögreglunni hafa borist margar ábendingar vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur. Þeirra á meðal er ábending frá konu sem setti sig í samband við lögreglu í gær og sagði frá árás sem hún varð fyrir ofarlega í Bankastræti aðfaranótt 8. janúar.

Skór Birnu fundust við Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi og hefur umfangsmikil leitaraðgerð farið fram á svæðinu í alla nótt. Engar frekari vísbendingar hafa þó fundist.

Ítarlegt uppgjör á atburðum næturinnar eftir að skórnir fundust má lesa hér.

Í samtali við Fréttablaðið sagði konan frá því hvernig nokkrir menn réðust að henni þar sem hún var á göngu upp Bankastrætið upp úr klukkan fimm að morgni. Eiginmaður hennar, sem var aðeins ofar í götunni, kom konu sinni til bjargar og lenti í stympingum við mennina.

Þá leitaði önnur kona aðstoðar lögreglu vegna gruns um að hafa verið byrlað ólyfjan á skemmtistaðnum Húrra, kvöldið sem Birna hvarf.

„Sem betur fer er hægt að halda því fram í þessu tilfelli að þó það sjáist að Birna hafi neytt áfengis þá ber hún sig ekki þannig að henni hafi verið gefið slíkt deyfiefni,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×