Innlent

Lögreglan rannsakar peysu sem fannst við Hafnarfjarðarhöfn

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Lögregla og björgunarsvetiri við leit í Hafnarfjarðarhöfn þar sem skórinn fannst.
Lögregla og björgunarsvetiri við leit í Hafnarfjarðarhöfn þar sem skórinn fannst. Vísir/Vilhelm
Lögreglan rannsakar nú flík sem fannst í gærkvöldi í Grjótgarði nálægt Hafnarfjarðarhöfn og hvort hún tengist hvarfi Birnu Brjánsdóttur. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn málsins, segir lögregluna ekki telja að flíkin sé af Birnu en rannsakar hvort hún tengist málinu. Almennur borgari fann flíkina.

Um er að ræða peysu sem fannst nálægt þeim stað sem skór af Birnu fundust á mánudagskvöld.

„Hún finnst í Grjótgarði á þessu svæði sem höfnin er og þar sem skórnir hennar fundust í Hafnarfirðinum,“ segir Grímur í samtali við Vísi.

Passar sú flík við lýsingarnar á því sem Birna var klædd í?

„Nei, við erum nokkuð vissir um það að þetta sé ekki flík af Birnu.“

„Ég er ekkert að halda því fram að þetta tengist. Þetta eru bara gögn í málinu sem við erum að skoða með nákvæmlega sama hætti og öll önnur mál. Eru þarna upplýsingar sem nýtast okkur í rannsókninni? Það kann að vera en það getur líka vel verið að svo sé ekki.“

Svartir Dr. Martens skór í skóstærð Birnu fundust á tólfta tímanum á mánudagskvöld í Hafnarfirði. Grímur sagði í gær að lögreglan hafi fengið til sín einstakling sem taldi sig geta staðfest að um skóna hennar Birnu væri að ræða, en til greina hefur komið að taka af þeim DNA-lífsýni, sem hins vegar tekur nokkurn tíma að greina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×