Innlent

Lögreglan kemst ekki í erlenda gagnabanka

ingibjörg bára sveinsdóttir skrifar
Við störf Fjárveitingum hefur verið forgangsraðað í þágu almennrar sýnilegrar lögreglu.
Við störf Fjárveitingum hefur verið forgangsraðað í þágu almennrar sýnilegrar lögreglu. vísir/anton Brink
Fimm ár eru síðan Ragna Árnadóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, undirritaði samkomulagið milli aðildarríkja Evrópusambandsins um einfaldaða lögreglusamvinnu. Því hefur hins vegar enn ekki verið komið á.

Samkomulagið, sem kallað er Prüm-samkomulagið þar sem það var upphaflega undirritað í Prüm í Þýskalandi, felur í sér gagnkvæman uppflettiaðgang að upplýsingum úr lífkennagagnabönkum, svo sem fingrafara- og erfðaefnisskrá lögreglu ásamt ökutækjaskrá, að því er segir á vef innanríkisráðuneytisins.

jóhannes Tómasson
Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi hjá innanríkisráðuneytinu, segir ekki liggja fyrir að svo stöddu hvenær unnt verður að koma á fyrirkomulaginu af Íslands hálfu. Í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir hann ekki fyrir hendi fullnægjandi tæknilegan búnað svo af því geti orðið.



„Eins og kunnugt er hefur verið aðhald í ríkisfjármálum undanfarin ár og hefur fjárveitingum verið forgangsraðað í þágu almennrar sýnilegrar lögreglu,“ skrifar Jóhannes.




Frá því að sænska lögreglan hóf að samkeyra erfðaefnisskrá sína við slíkar skrár hjá lögregluembættum annarra ríkja hefur hún fengið aðstoð vegna rannsóknar á afbrotum 206 einstaklinga sem skilið hafa eftir lífsýni á vettvangi glæps. Samkvæmt frétt sænska ríkisútvarpsins hefur nú fyrsti dómurinn verið felldur í Svíþjóð í kjölfar slíkrar samvinnu. Gögn um erfðaefni manns sem grunaður var um nauðgun fundust í lífkennagagnabanka í Finnlandi. Maðurinn sat í fangelsi í Finnlandi vegna nauðgunar en var framseldur til Svíþjóðar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×