Erlent

Lögregla undrandi vegna dauða ungs pars

Samúel Karl Ólason skrifar
Bærinn Dundee er í úthverfi Detroit í Michigan.
Bærinn Dundee er í úthverfi Detroit í Michigan. Vísir/Getty
Lögreglan í Dundee í Bandaríkjunum er undrandi eftir að þau Cameron og Courtney Hulet fundust látin á stofugólfinu á heimili þeirra. Þau virðast hafa látist á sama tíma en ekki er vitað af hverju. Við hlið þeirra fannst matur og drykkir frá Taco Bell, en ekki var búið að snerta á honum.

Nágranni þeirra gekk inn til þeirra á síðastliðin þriðjudag og sá þau liggja hlið við hlið á golfinu. Hún heyrði stunur og hélt að þau væru sofandi. Seinna um kvöldið, eftir að nágranninn hafði ekki orðið þeirra var vitjaði hún þeirra aftur og uppgötvaði að þau væru látin.

Lögreglan segir að þau hafi verið látin í minnst tólf tíma og líklega hafi þau verið látin, eða „mjög nálægt því“ samkvæmt Washington Post.

Rannsakendur eru engu nær varðandi hvernig þau dóu á sama tíma, en lyf eru talin líklegasta orsökin. Hins vegar fást ekki niðurstöður úr eiturefnarannsóknum fyrr en eftir tvær vikur. Þá fundust engin ummerki lyfjanotkunar á heimili þeirra og engin ummerki á þeim um að of stóran skammt af fíkniefnum væri að ræða.

Lögregluþjónar fundu þó um hálft kíló af marijúana sem verið var að skipta upp í söluumbúðir en lögreglan veit ekki hvort það tengist dauða þeirra.

Tvö börn höfðu búið á heimilinu en þau höfðu verið tekin af barnaverndaryfirvöldum skömmu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×