Innlent

Lögregla oft kölluð til í nótt vegna hávaða

Hjörtur Hjartarson skrifar
Vísir
Nokkuð erilsamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Fjölmargar tilkynningar bárust vegna hávaða í heimahúsum þar sem Júróvisjónveislur fóru úr böndunum.

Tveir voru teknir undir stýri, grunaðir um að vera undir áhrifum kókaíns. Fjöldi lögreglumanna voru sendir að Gullhömrum um klukkan 12 í gærkvöld þar sem slagsmál geysuðu. Tveir voru handteknir vegna líkamsárásar. Báðir eiga yfir sér höfði kærur fyrir að ráðast að lögreglu. Mennirnir eru báðir um tvítugt. Þeir voru nokkuð ölvaðir og mögulega undir áhrifum örvandi efna. Beita þurfti lögreglukylfu til að yfirbuga þá.

Um klukkan sex í gær var tilkynnt um tvo þriggja ára pilta sem rötuðu ekki heim. Haft var upp á foreldrum þeirra sem voru sjálfir farnir að leita drengjanna. Þeir litlu höfðu að sögn elt sér eldri drengi en misst af þeim og ekki ratað til baka.

Fimm voru handteknir í dag, en einn þeirra er grunaður um að hafa bakkað á karlmann við gatnamót Kringlumýrar- og Háaleitisbrautar, þar sem hann var á leið yfir gatnamótin. Ökumaðurinn hafði farið af vettvangi án þess að nema staðar. Upplýsingar um skráningarnúmer bifreiðarinnar lágu fyrir og hafði lögregla þannig uppi á bifreiðinni þar sem henni var lagt fyrir utan hús. Þar voru einstaklingarnir fimm handteknir þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um hver ökumaður bifreiðarinnar í umrætt skipti. Þeir reyndust undir áhrifum áfengis og voru því vistaðir í fangaklefa vegna rannsóknar málsins. Maðurinn sem fyrir bifreiðinni varð er ekki talinn alvarlega slasaður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×