Innlent

Lögregla leitar ágengs perra í Garðabæ

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn stöðvaði stúlkurnar á göngu sinni í íbúðarhverfi nærri íþróttasvæði Stjörnunnar í Garðabænum í hádeginu í gær.
Maðurinn stöðvaði stúlkurnar á göngu sinni í íbúðarhverfi nærri íþróttasvæði Stjörnunnar í Garðabænum í hádeginu í gær. Kort/Loftmyndir.is
Tvær stúlkur á táningsaldri urðu fyrir aðkasti karlmanns á leið sinni til unglingavinnu að loknu hádegishléi í Garðabænum í gær. Lögregla staðfestir að til standi að skoða upptökur á öryggismyndavélum en maðurinn er ófundinn. Atvikið átti sér stað í íbúðahverfi nærri Stjörnuheimilinu.

Móðir annarar stúlkunnar segir í samtali við Vísi að vinkonurnar hafi verið að mæta aftur til vinnu þegar maðurinn veittist að þeim. Hann hafi gripið í dóttur hennar og „leikið við sjálfan sig.“

Móðirin, sem vill ekki láta nafns síns getið dóttur sinnar vegna, segir stúlkurnar hafa hlaupið í burtu. Þær hafi snúið sér við á hlaupunum og séð manninn glottandi við sömu athöfn og áður.

„Augnráðið situr í henni,“ segir móðirin.

Flassarar venjulega ekki agressívir

Stúlkurnar hlupu upp í Garðaskóla og tilkynntu flokkstjóra sínum hvað gerst hafði. Hann hafi hringt í lögreglu sem mætt hafi á svæðið.

Lögreglan í Hafnarfirði, sem er með málið til skoðunar, segir að ekki liggi fyrir hver hafi verið þarna á ferð. Móðirin hefur eftir lögreglunni að „flassarar“ gripu venjulega ekki í fórnarlömb sín eins og þarna. Þeir væru allajafna ekki svo „agressífir“.

„Það er verst að þetta er um hábjartan dag í íbúðahverfi,“ segir móðirin sem vonast til þess að lögreglan komist til botns í málinu að lokinni skoðun á öryggismyndavélum. Lögreglan hafi haft á orði að uppátæki á borð við þessi gerðust oft í hrynum og því full ástæða til að hafa augun opin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×