Innlent

Lögregla bregðist við

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra kvennaathvarfsins vill að lögregla beiti heimild til að fjarlægja ofbeldismenn af heimilum.
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra kvennaathvarfsins vill að lögregla beiti heimild til að fjarlægja ofbeldismenn af heimilum. Vísir/Pjetur Sigurðsson.
Sjö íbúar, börn og konur, voru í Kvennaathvarfinu yfir hátíðirnar vegna heimilisofbeldis. Börnin fengu gjafir frá velunnurum athvarfsins og opnuðu þær við skreytt jólatré, þá var boðið upp á hátíðarmat á aðfangadagskvöld og jóladag.

„Við viljum auðvitað að enginn gisti í Kvennaathvarfinu, síst á jólum. En þótt aðstæður séu vondar er allt reynt til að gera jólin hátíðleg,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra athvarfsins, og segir bakgrunn þeirra sem koma í athvarfið margvíslegan og því fari jólahald í athvarfinu eftir því hverjir gista þar.

„Við hlustum svolítið eftir því, svo eru margir sem hugsa hlýlega til okkar í Kvennaathvarfinu og því er hægt að gefa gjafir og hafa jólamat.“

Hún segist ekki verða mikið vör við það að ofbeldismenn séu fjarlægðir af heimilum sínum, þótt það hafi borið árangur á Suðurnesjum í átaki gegn heimilisofbeldi þar. Hún væntir þess þó að það verði regla fremur en undantekning vegna orða nýs lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, Sigríðar Guðjónsdóttur.

„Í lögum eru heimildir til að fjarlægja ofbeldismann af heimili í stað þess að þolendur þurfi að flýja,“ sagði Sigþrúður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×