Innlent

Lögmaður og símamaður ekki lengur til rannsóknar

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Garðar Steinn Ólafsson lögmaður mannanna segir málið allt hið undarlegasta.
Garðar Steinn Ólafsson lögmaður mannanna segir málið allt hið undarlegasta.
Lögmaður og starfsmaður fjarskiptafyrirtækisins Nova sem handteknir voru grunaðir um brot á fjarskiptalögum eru ekki lengur undir grun.

Mennirnir tveir voru handteknir í tengslum við rannsókn lögreglu á broti lögreglumanns vegna uppflettingar og meðferðar á upplýsingum úr upplýsingakerfi lögreglunnar (LÖKE).

Starfsmanni Nova var handtekinn og í kjölfarið vikið frá störfum vegna gruns um að hafa misnotað aðstöðu sína hjá fyrirtækinu. Þá var fór lögmaðurinn í tímabundið leyfi frá lögmannsstörfum vegna málsins, en hann var grunaður um hlutdeild í brotum hinna tveggja.

Ríkissaksóknari hefur sent mönnunum tveimur bréf þar sem fram kemur að málin hafi verið felld niður hvað þá tvo varðar.

Mál lögreglumannsins er enn til meðferðar hjá Ríkissaksóknara en lögreglan á Suðurnesjum hefur lokið rannsókn þess.

Í bréfum Ríkissaksóknara kemur fram að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að þeir séu sekir um brot á ákvæðum fjarskiptalaga, né að þeir hafi átt hlutdeild í meintum brotum annarra kærðu.

Garðar Steinn Ólafsson lögmaður mannanna segir málið allt hið undarlegasta. „Nú liggur fyrir að engum upplýsingum úr LÖKE eða kerfum Nova var deilt á lokuðum Facebook hóp skjólstæðinga minna. Raunar hefur lögregla frá upphafi átt mjög erfitt með að svara hvaða trúnaðarupplýsingum þeir töldu eiginlega hafa verið deilt, þar sem skjólstæðingar mínir minnast aldrei í nokkrum samræðum sínum á LÖKE, lögreglukerfi, málaskrá lögreglu eða neitt því um líkt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×