Erlent

Lögleiðing vændis sögð nauðsynleg til að hefta útbreiðslu alnæmis

Randver Kári Randversson skrifar
Alþjóðleg ráðstefna um alnæmi fer nú fram í Melbourne í Ástralíu.
Alþjóðleg ráðstefna um alnæmi fer nú fram í Melbourne í Ástralíu. Vísir/AFP
Ef takast á að stöðva útbreiðslu alnæmis í heiminum verður að vera löglegt að vinna fyrir sér með vændi.  Ritstjórar eins þekktasta læknatímarits heims, The Lancet, halda þessu fram í nýrri greinaröð. Þetta kemur fram á vef Independent.

Ef draga á úr líkum á HIV-smiti og öðrum kynsjúkdómum meðal karla og kvenna sem vinna við vændi er þetta meðal þess sem nauðsynlegt er að gera svo vernda megi heilsu þess hóps. Sérfræðingar telja að hægt verði að binda endi á útbreiðslu HIV-veirunnar og alnæmis fyrir árið 2030, en hafa áhyggjur af að útbreiðslan muni þó haldið áfram meðal afmarkaðra hópa þeirra sem eru í mikilli áhættu á að smitast.

Í nýrri greinaröð sem tímaritið birtir á sama tíma og alþjóðlega alnæmisráðstefnan fer fram í Melbourne í Ástralíu,  er sýnt fram á að fólk sem stundar vændi standi frammi fyrir umtalsverðum  hindrunum varðandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu og meðferðum við sjúkdómnum vegna þeirrar skammar og mismununar sem fylgi því að vændi sé ólöglegt.

Bent er á að þeir sem starfa í kynlífsiðnaðinum séu í mestri áhættu á að smitast af HIV og öðrum kynsjúkdómum. Þá kemur fram að í sumum ríkjum Afríku sunnan Sahara séu meira en 50% þeirra sem starfi í kynlífsiðnaði HIV-smitaðir og eru ráðamenn heims hvattir til að gera vændi refsilaust í þeim tilgangi að aflétta öllum slíkum hindrunum að heilbrigðisþjónustu.

Greinarhöfundar telja að draga megi lærdóm af reynslu Hollendinga, en í Amsterdam er löglegt að vinna fyrir sér með vændi. Það geri lögreglu kleift að einbeita sér að því að draga úr ofbeldi, vernda þá vinni fyrir sér með vændi og styðja við fyrirbyggjandi aðgerðir gegn HIV-smiti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×