Körfubolti

Logi: Við erum allir eins og bræður

Óskar Ófeigur Jónsson frá London skrifar
Logi á æfingu íslenska landsliðsins í gær.
Logi á æfingu íslenska landsliðsins í gær. Vísir/ÓÓJ
Logi Gunnarsson, leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins, hefur spilað marga leiki á ferlinum en er harður á því að leikurinn á móti Bretum í kvöld sé sá stærsti. Með sigri tryggir íslenska liðið sér annað sætið í riðlinum og mögulega sæti á EM.

„Þessi leikur er númer eitt á mínum ferli, með öllum liðum og á öllum þessum árum. Þetta er stærsti leikurinn á ferlinum," sagði Logi Gunnarsson og er ekkert að skafa af hlutunum enda engin ástæða til þess.

„Stærsta markmiðið sem við getum sett okkur sem íslensk körfuboltaþjóð er að komast á stórmót og þetta var fjarlægur draumur þegar ég byrjaði. Það er rosalega gaman að vera í þessari stöðu og við eigum að njóta þess að búnir að vinna okkur það vinna að vera í svona stöðu," sagði Logi sem hefur spilað 103 landsleiki fyrir Ísland.

„Núna þurfum við bara að klára þessa ferð sem við erum á með því að vinna þennan leik," sagði Logi. Hann segir að allir í liðinu ætli að passa að slaka ekki á þótt að liðið sé búið að endurheimta Jón Arnór Stefánsson.

„Við sem höfum verið að spila mikið þurfum að halda áfram að vera áræðnir og megum ekki slaka á í því þótt að Jón sé kominn. Við þurfum að vaða áfram á körfuna og halda áfram að dreifa boltanum vel eins og við höfum verið að gera," sagði Logi og bætti við:

„Ég hef enga trú á öðru en að við gerum það. Við erum búnir að vera með Jón í allt sumar og vorum að spila mjög flottan leik á öllum æfingum þegar hann var með. Við höldum því bara áfram," sagði Logi. Hann segir liðið samheldið og þar sé sterk liðsheild.

„Við erum flestir í þessu liðið búnir að vera að spila saman í tíu ár og svo hafa bæst inn ungir leikmenn á þessum tíma sem er frábært. Við erum mjög samstilltir og þetta er góð blanda af ungum og eldri leikmönnum. Við fáum svo mikið úr því að gera þetta saman því við erum allir mjög nánir og allir eins og bræður," sagði Logi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×