Íslenski boltinn

Logi: Þurfti ekki að grafa lengi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Víkingur hefur ekki enn tapað leik eftir að Logi tók við þjálfun liðsins.
Víkingur hefur ekki enn tapað leik eftir að Logi tók við þjálfun liðsins. vísir/stefán
Logi Ólafsson, þjálfari Víkings R., sagði að sínir menn hefðu tekið sig taki í hálfleik gegn nöfnum sínum úr Ólafsvík í kvöld.

„Það sem aflaga fór í fyrri hálfleik var að hreyfingar okkar í uppspilsþættinum voru rangt tímasettar. Þar af leiðandi náðum við ekki að opna þá neitt, vorum frekar daufir og hlupum lítið,“ sagði Logi eftir leik.

„Þetta lagaðist í seinni hálfleik. Við hlupum meira og tímasettum hlaupin okkar betur.“

Víkingar skoruðu snemma í seinni hálfleik en staðan hélst 1-0 allt þangað til sex mínútur voru til leiksloka. Logi viðurkennir að hafa ekki verið í rónni á meðan munurinn var bara eitt mark.

„Já, ég var alltaf smeykur. Þeir eru með stórhættulega menn þarna fram á við. Auðvitað er maður alltaf hræddur,“ sagði Logi.

Síðan að hann tók við hafa Víkingar halað inn 11 stig og eru komnir upp í 5. sæti Pepsi-deildarinnar. Logi er að vonum ánægður með hvernig til hefur tekist.

„Það er ekki hægt að vera annað en ánægður með hvernig hefur gengið. Strákarnir hafa svarað kallinu og virkilega lagt sig fram. Við erum að gera þetta sem lið og það breytir öllu,“ sagði Logi.

En var hann orðinn ryðgaður í þjálfarafræðunum eftir nokkurra ára hvíld?

„Ég var ryðgaður í upphafi en þurfti ekki að grafa lengi til að ná þessu fram. Svo er ég með frábæra menn með mér, Bjarna Guðjónsson og [Hajrudin] Cardakilja. Þeir kunna sitt fag,“ sagði Logi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×