Handbolti

Logi: Dómararöfl er krabbamein í íslensku deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/anton/ernir/eyþór
Logi Geirsson, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta, segir að væl yfir dómum og dómurum sé krabbamein í íslenskum handbolta.

Talsverð umræða hefur skapast um dómgæsluna hér heima eftir að Einar Jónsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar, gagnrýndi dómaraparið Arnar Sigurjónsson og Svavar Pétursson eftir leik Stjörnunnar og Aftureldingar á dögunum.

Einar fékk að líta rauða spjaldið eftir leikinn og fór í eins leiks bann. Hann fékk svo annan leik í bann eftir að hann gagnrýndi þá Arnar og Svavar í samtali við Vísi. Þar fór hann m.a. fram á afsökunarbeiðni frá dómaraparinu.

Logi fór hörðum orðum um framgöngu Einars og fleiri þjálfara í Föstudagsboltanum, nýjum vikulegum handboltaþætti á RÚV í dag.

„Mér finnst þetta vandræðalegt. Það vita það allir hér heima að dómararnir eru að gera sitt besta. Mér finnst að við eigum að taka körfuboltann til fyrirmyndar, þar er borin þvílíkt mikil virðing fyrir dómurunum,“ sagði Logi og bætti því við að dómarastarfið hér á landi væri mjög faglegt.

„Þessi umræða er svo leiðinleg. Önnur hver frétt um handbolta á Íslandi er um lélega dóma. Þetta er þreytt og það á að útrýma þessu. Þetta er svo vandræðalegt fyrir þá sem væla yfir þessu.“

Logi segir að svona dómaraumræða sé ekki til staðar í stærstu og bestu deildum Evrópu.

„Þetta er orðið krabbamein í þessari deild, að væla yfir dómum,“ sagði Logi ákveðinn.


Tengdar fréttir

Jóhann Ingi: Dómarinn settur í erfiða stöðu

Það vakti athygli í kvöld að annar dómaranna sem Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, gagnrýndi og var settur í bann fyrir, Arnar Sigurjónsson, var mættur til þess að dæma leik Stjörnunnar og Hauka í kvöld.

Formaður dómaranefndar: Hegðun Einars alveg út úr kú

Framkvæmdastjóri HSÍ, Einar Þorvarðarson, hefur vísað ummælum Einars Jónssonar, þjálfara Stjörnunnar, á Vísi í gær til aganefndar. Formaður dómaranefndar HSÍ vísar ásökunum þjálfarans til föðurhúsanna.

Einar vill fá afsökunarbeiðni frá dómurunum

"Ég get ekki fengið annað á tilfinninguna en að það sé verið að dæma gegn okkur,“ segir Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, en hann er verulega ósáttur við dómgæsluna í leik sinna manna gegn Aftureldingu um nýliðna helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×