Körfubolti

Logi: Ætlum að ná í miðann á EM sjálfir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Logi Gunnarsson teygir á æfingu Íslands í Höllinni í gærkvöldi.
Logi Gunnarsson teygir á æfingu Íslands í Höllinni í gærkvöldi. vísir/andri marinó
„Það er geggjað að fá að taka þátt í fyrsta körfuboltalandsleiknum þar sem verður full Höll. Það verður ekki betra,“ segir LogiGunnarsson, stórskytta karlalandsliðsins í körfubolta, við Vísi.

Í fyrsta sinn á körfuboltalandsleik verður Laugardalshöll full í kvöld þegar Ísland mætir Bosníu í lokaleik undankeppni EM 2015.

„Eftir að hafa spilað úti í Bosníu og marga leiki í Austur-Evrópu þá verður þetta svo sem ekkert mál, en það verður gaman þegar allir halda með þér. Það verður kannski munurinn,“ sagði Logi.

„Við bíðum spenntir eftir því að spila þennan leik. Stuðningurinn hefur verið góður í þessum leikjum og nú verður bara gaman að fá ennþá fleiri í Höllina.“

Þó Ísland tapi í kvöld getur það samt komist á EM þökk sé tveimur sigrum á Bretum, en með þeim tryggðu strákarnir sér annað sætið í riðlinum. Falli önnur úrslit Íslandi í hag í kvöld fer liðið á EM sama hvað gerist.

„Aðalmálið er að vinna leikinn og við erum nógu góðir til þess. Við vitum að það er enginn sem gefur okkur neitt - við verðum að ná í það sjálfir. Og það ætlum við að gera. við ætlum að ná í þennan miða á Evrópumótið,“ segir Logi ákveðinn.

Mirza Teletovic, besti leikmaður Bosníumanna, verður ekki með í kvöld af persónulegum ástæðum, en hvernig kemur það til með að breyta gangi leiksins? 

„Það gæti jafnvel verið verra fyrir okkur. Þá verða fleiri sem þurfa að leggja sitt af mörkum og ekki eins margir sem horfa bara á og fylgjast með honum. En að vissu leyti getur það líka verið gott því stundum tekur hann yfir leiki,“ sagði Logi.

„Þetta eru samt allt leikmenn sem spila í toppdeildum í Evrópu sem vilja sýna hvað þeir geta án stjörnunnar sinnar. Þeir eiga eftir að spila meira sem lið. Við gerðum það sama gegn Bretunum þegar okkur vantaði Jón Arnór þannig við vitum alveg hvernig þetta er. Það er líka erfiðara að reikna þá út því maður veit ekki hverjir stíga upp,“ sagði Logi Gunnarsson.


Tengdar fréttir

Vonar að adrenalínið gleypi sársaukann

Íslenska körfuboltalandsliðið spilar í fyrsta sinn fyrir fullri Laugardalshöll í kvöld og í boði er sæti á EM. "Við erum því miður ekki öryggir áfram en erum mjög nálægt þessu,“ segir Hlynur Bæringsson sem ætlar að spila þrátt fyrir ökklameiðsli. "Hann er

Bosníumenn án síns besta manns í Höllinni

NBA-leikmaðurinn Mirza Teletovic, stigahæsti leikmaður undankeppni EM, verður ekki með bosníska landsliðinu í leiknum á móti Íslandi í Laugardalshöllinni á miðvikudag. Karfan.is hefur það eftir vefsíðunni Sportsport.ba að Mirza Teletovic komi ekki með til Íslands af persónulegum ástæðum en Bosníumenn hafa þegar tryggt sér sæti á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×