Erlent

Lögðu hald á ellefu tonn af kókaíni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Franco Roberti sér um að sækja ítalska mafíósa til saka.
Franco Roberti sér um að sækja ítalska mafíósa til saka. vísir/epa
Lögregluyfirvöld í Ítalíu, Kólumbíu og Bandaríkjunum tilkynntu í dag að þau hefðu lagt hald á ellefu tonn af kókaíni. Stærstur hluti efnanna fannst í frumskógum Kólumbíu. Fjallað er um málið á vef Reuters.

Til að setja fundinn í samhengi þá nemur verðmæti efnanna, sé miðað við verð á grammi af kókaíni hér á Íslandi, um 187 milljörðum króna. Fyrir þá upphæð mætti reka Landspítalann í rúm þrjú ár. Við þá útreikninga er miðað við upplýsingar frá SÁÁ. Í útreikningunum er ekki gert ráð fyrir því verðhruni sem offramboð á efninu hefði í för með sér.

Efnunum var smyglað út úr frumskógunum með því að fela þau í gámum sem innihéldu ávexti. Þaðan voru þau flutt til Bandaríkjanna og Ítalíu með viðkomu í löndum á borð við Panama, Kosta Ríka og Dóminíska lýðveldið. 33 hafa verið handteknir í dag í tengslum við málið, 22 í Kólumbíu en ellefu á Ítalíu. Bandaríska fíkniefnalögreglan (DEA) aðstoðaði við rannsókn málsins.

„Það er betra að heyja þetta í sameiningu,“ sagði fulltrúi DEA á blaðamannafundi í Rome þar sem tilkynnt var um haldlagninguna. Með honum á fundinum var Franco Roberti, sérstakur mafíusaksóknari Ítala.

Fyrr á árinu sagði kólumbíska lögreglan frá sinni stærstu haldlagninu í sögunni. Þá fundust tæp átta tonn á kókaínu sem höfðu verið falin á bananaræktarlandi. Fundurinn í dag er því stærri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×