Skoðun

Lögbrot í grunnskólum

Guðrún Valdimarsdóttir skrifar

Foreldrar grunnskólabarna í Reykjavík sætta sig ekki við illa ígrundaðan niðurskurð í grunnskólum Reykjavíkur. Núna stöndum við frammi fyrir beinum niðurskurði sem er niðurskurður ofan á hagræðingu. Áætlaður heildarniðurskurður hjá menntasviði á ársgrundvelli er núna rúmur milljarður króna en uppsafnaður niðurskurður nálgast 20%.

Formaður menntaráðs fullyrðir að borgin muni sjá til þess að grunnskólalög verði ekki brotin. Flestir foreldrar eiga bágt með að trúa því þar sem nú þegar er verið að brjóta á réttindum barna til náms um alla borg. Frekari niðurskurður mun aðeins auka á þann vanda.

Með fyrirhugaðri 250 milljón króna skerðingu á kennslumagni munu skólarnir ekki geta sinnt lögbundinni skyldu sinni og framfylgt Aðalnámskrá grunnskóla. Ástandið er nógu slæmt fyrir. List- og verkgreinakennsla er ekki fullnægjandi í mörgum skólum. Börnum er víða ekki boðið upp á sundkennslu og forfallakennsla hefur verið lítil sem engin á þessum skólavetri. Með fjölgun í bekkjum verður ómögulegt að framfylgja stefnu menntayfirvalda um skóla án aðgreiningar þannig að öll börn eigi jafnan rétt til náms og eigi að fá stuðning og kennslu við sitt hæfi.

Mörgum foreldrum finnst enn verra að geta ekki treyst því að börn þeirra séu í öruggu umhverfi á skólatíma eins og þau eiga rétt á samkvæmt landslögum. Niðurskurður á fjárveitingum til gæslumála í frímínútum og í matartímum mun skapa kjörlendi fyrir aukið einelti. Þeir sem til þekkja vita að eineltismálin eru allt of mörg og erfið nú þegar.

Grunnskóli er bundinn í lög og börnin hafa skólaskyldu. Þau skulu sækja grunnskóla hvort sem þeim líkar betur eða verr. Foreldrar gera þá eðlilegu kröfu að ekki sé brotið á börnunum í skólanum.

Það er skylda Reykjavíkurborgar að fara eftir lögum og að forgangsraða í þágu velferðar barna og unglinga. Á erfiðum tímum ættum við að byggja upp grunnstoðir samfélagsins en ekki brjóta þær niður.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×