Erlent

Lög um Ísrael sem ríki gyðinga fara til þingsins

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Palestínskur maður bendir á veggjakrot landtökumanna úr hópi Ísraela sem reyndu að kveikja í heimili hans á Vesturbakkanum. Á veggnum stendur „Dauða yfir araba!“.
Palestínskur maður bendir á veggjakrot landtökumanna úr hópi Ísraela sem reyndu að kveikja í heimili hans á Vesturbakkanum. Á veggnum stendur „Dauða yfir araba!“. Fréttablaðið/AP
Ákvörðun ríkisstjórnar Ísraels í gær um að samþykkja lagafrumvarp þar sem Ísraelsríki er skilgreint sem ríki gyðinga er sagt líkleg til að verða sem olía á eld í samskipum við arabíska íbúa landsins.

Fjórtán ráðherrar greiddu frumvarpinu atkvæði, en sex ráðherrar úr tveimur flokkum voru á móti.

Ákvörðunin, sem þegar hefur vakið heitar umræður sem gætu jafnvel ógnað fjölflokkasamstarfi ríkisstjórnar Benjamins Netanjahu, forsætisráðherra Ísrael, kemur í kjölfar vikulangra átaka sem upp hafa komið í samskiptum gyðinga og araba í landinu.

Benjamin Netanjahu
Hún er af gagnrýnendum sögð skaða ímynd landsins sem lýðræðisríkis og illa tímasett þegar aðstæður séu jafnviðkvæmar og raun beri vitni. Frumvarpið fer nú frá ríkisstjórninni aftur til þingsins þar sem kosið verður um það.

Ísrael hefur allt frá sjálfstæðisyfirlýsingu landsins 1948 skilgreint sig sem „gyðingaríki“, en nýju lögin gera skilgreininguna hluta af „grunnlögum“ eða því sem svarar til stjórnarskrár Ísraels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×