Erlent

Lofuð fyrir að berjast gegn ræningjum og bjarga manni sínum

Samúel Karl Ólason skrifar
Ræningjarnir hlupu á eftir hjónunum þegar þau voru að ganga inn í íbúð sína í London.
Ræningjarnir hlupu á eftir hjónunum þegar þau voru að ganga inn í íbúð sína í London.
Tveir menn sem rændu hjón og skutu manninn þrisvar sinnum í London í nóvember í fyrra hafa verið dæmdir í samtals 43 ára fangelsi. Mennirnir voru dæmdir í dag, en í réttarhöldunum var horft á myndband af ráninu sem hefur verið birt. Konan segist hafa óttast um líf sitt og ekkert hafi komið til greina annað en að berjast á móti ræningjunum.

„Á þessum tímapunkti var ég sannfærð um að annað hvort myndi ég streitast á móti, eða við myndum bæði verða flutt á brott í líkpokum. Markmið þeirra var að ræna mig og eiginmann minn af skartgripum okkar,“ sagði konan samkvæmt frétt Sky News.

Ræningjarnir tveir heita Nyrome Hinds og David Sterling. Hinds var dæmdur í 32 ára fangelsi og Sterling í ellefu og hálft ár. Hinds var handtekinn degi eftir árásina, en þegar Sterling fannst skömmu seinna var hann með skotsár á hendinni sem talið er að hann hafi fengið í árásinni. Það er að Hinds hafi skotið hann fyrir slysni.

Þeim tókst að ná úri af úlnliði konunnar en hjónin streittust á móti og ýttu mönnunum niður tröppurnar fyrir utan heimili þeirra. Þá skaut Hinds eiginmanninn í fótinn og í magann. Svo skaut hann aftur þar sem maðurinn lá í götunni.

Hann hlaut fótbrot og særðist mikið í maganum, en honum hefur verið sleppt af sjúkrahúsi.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Nick Hamer hrósaði eiginkonunni í réttarsal fyrir hugrekki hennar og hvernig hún varðist ræningjunum.

„Ef ekki væri fyrir hennar aðgerðir er mjög líklegt að fleiri skotum hefði verið skotið að eiginmanni hennar og útkoman hefði verið allt önnur,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×