Erlent

Loftslagsbreytingar gætu gert loftmengun verri

Kjartan Kjartansson skrifar
Breytt vindafar af völdum loftslagsbreytinga gæti þýtt að viðvarandi loftmengun í kínverskum borgum verði enn verri. Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að breytt loftslag þýði að ólíklegra verði að vindur hreyfi við menguninni í norðurhluta landsins.

Gríðarleg loftmengun sem kemur frá kolaorkuverum og stórum verksmiðjum þjakar kínverskar stórborgir. Mengunin veldur meðal annars öndunarfærasjúkdómum og hefur reiði almennings vegna hennar orðið til þess að stjórnvöld eru farin að taka vandamálið alvarlegar.

Ný rannsókn á veðuraðstæðum sem tengjast sérstaklega slæmri loftmengun sem birtist í Science Advances fyrr í þessum mánuði bendir til þess að þær aðstæður gætu orðið algengari með hlýnandi loftslagi á næstu áratugunum, samkvæmt frétt New York Times.

Vísindamennirnir telja að mengunin verði frekar viðvarandi þegar loft er óvenju kyrrstætt. Þegar loftmengunin fór úr öllu valdi í Beijing árið 2013 hafði ekki verið eins lygnt yfir borginni í þrjá áratugi.

Mikill bruni kola til hitunar og orkuframleiðslu veldur loftmengun í mörgum kínverskum borgum.Vísir/EPA
Þær aðstæður gætu orðið algengari þegar veðrakerfi riðlast með hlýnun jarðar. Rannsakendurnir segja að bráðnun íss á norðurskautinu ásamt aukinni snjókoma yfir Síberíu hafi breytt vindafari yfir Asíu veturinn 2013. Það hafi leitt til þess að mengað loft hafi ekki náð að hreinsa sig.

Heitir því að „gera himininn bláan aftur“

Reynist þetta rétt gæti mengunin orðið sérstaklega erfið við að eiga á veturna en þá er hún einmitt mest þegar meira er brennt af kolum til upphitunar.

Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, hét því að „gera himinnn bláan aftur“ og lofaði að draga enn frekar úr kolanotkun í landinu fyrr í þessum mánuði.

Loftmengunin í Kína er talin geta orðið til þess að stjórnvöld þar taki forystu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum á sama tíma og Bandaríkin undir stjórn Donalds Trump virðist vera að gefa hana upp á bátinn.


Tengdar fréttir

Vilja binda enda á losun gróðurhúsaloftegunda fyrir árið 2045

Sænska ríkisstjórnin hefur skrifað undir laga frumvarp sem miðar að því að binda enda að öllu leyti á losun gróðurhúsaloftegunda fyrir árið 2045. Sænska ríkisstjórnin sendir þar með út ákall til allra landa, þar á meðal Bandaríkjanna, að leggjast í samskonar úrbætur og uppfylla þar með Parísarsáttmálann.

Styrkur koltvísýrings setur áfram met

Magn gróðurhúsalofttegundarinnar hefur vaxið hundrað til tvö hundruð sinnum hraðar síðasta áratuginn en þegar síðustu ísöld lauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×