Innlent

Lofað allt að hálfri milljón fyrir að hóta fulltrúa lögreglustjórans

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árásin átti sér stað aðfaranótt 12. nóvember í fyrra.
Árásin átti sér stað aðfaranótt 12. nóvember í fyrra. Vísir
Karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri eru sakaðir um að hafa að undirlagi karlmanns á sextugsaldri haft í hótunum við fulltrúa lögreglustjórans á Akureyri og kveikt í bíl hans með bensínsprengju í nóvember síðastliðnum. Þetta kemur fram í ákærunni sem fréttastofa hefur undir höndum.

Maðurinn á sextugsaldri er sagður hafa verið ósáttur við afgreiðslu fulltrúans, Eyþórs Þorbergssonar sem sækir flest mál fyrir hönd lögreglunnar í Héraðsdómi Norðurlands eystra, í sakamálum gegn honum. Samkvæmt heimildum Vísis mun umræddur maður meðal annars hafa verið sviptur ökuréttindum fyrir umferðarlagabrot.

Huldi andlit og hélt vopnaður að heimili fulltrúa lögreglu

Í ákærunni segir að yngri mennirnir tveir hafi að undirlagi þess eldri farið að heimili Eyþórs á Akureyri aðfaranótt miðvikudagsins 12. nóvember í því skyni að beita hann ofbeldi. Hafi þeim verið heitið fjárhæð á bilinu 300-500 þúsund krónum fyrir verkið. Sá yngsti ók þeim á fertugsaldri að heimili Eyþórs. Sá huldi andlit sitt og gekk vopnaður skapti heim til Eyþórs og knúði dyra.

Er Eyþór opnaði dyrnar hafi maðurinn slegið hann í handlegginn. Eyþór hafi tekist að loka hurðinni og læsa. Á sama tíma stóð sá á þrítugsaldri vaktina við lögreglustöðin á Akureyri, tilbúinn að láta vita ef lögregla yrði kölluð út. Sótti hann svo árásarmanninn og óku þeir á brott.

Kveiktu í bíl með bensínsprengju

Morguninn eftir héldu þeir til mannsins á sextugsaldri í því skyni að fá greitt fyrir verkið Keyptu þeir meðal annars vörur fyrir rúmlega 56 þúsund krónur síðar um daginn með debetkorti þess eldri. Þá fengu þeir samtals 50 þúsund krónur sem uppígreiðslu fyrir árásina. Eyþór hlaut mar á vinstri framhandlegg og litla fingri vinstri handar.

Mennirnir tveir eru svo sakaðir um að hafa nokkrum klukkustundum eftir árásina lagt eld að bifreið í eigu Eyþórs sem lagt var fyrir utan heimili hans. Helltu þeir bensíni yfir bifreiðina og kveiktu svo í tuskum sem þeir höfðu stungið í glerflösku með bensíni. Köstuðu þeir flöskunum í bifreiðina og ollu með því eldsvoða sem hafði almannahættu í för með sér eins og segir í ákærunni.

Mikið eignartjón hafi orðið á bifreiðinni en eldurinn var slökktur af lögreglu og slökkviliði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×