Innlent

Lofa sól og blíðu á Ísafirði um verslunarmannahelgina

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Evrópumeistaramótið í Mýrarbolta fer fram á Ísafirði um verslunarmannahelgina. Mótshaldarar lofa góðu stuði og segja drulluna í ár vera einstaklega góða.

„Þetta er búið að vera blautt sumar, þannig að við eigum von á góðri drullu,“ segir Jóhann Bæring Gunnarsson, drullusokkur Mýrarboltans í ár.

En hvað er svona skemmtilegt við Mýrarboltann?

„Þetta er nú eiginlega rannsóknarefni. Ef þú ferð til dæmis á leikskóla og sérð krakka vera að drullumalla í pollum, þeim finnst það rosalega gaman. Ég held að það sé eitthvað í eðli okkar, það að vera í svona drullumalli, það er ógeðslega gaman,“ segir Jóhann.

En Mýrarboltinn er ekki bara stanslaus átök, þetta er líka góð skemmtun?

„Já heldur betur. Stemningin hérna á svæðinu er rosalega góð. Fólk heldur kannski að það þurfi að vera í einhverju toppformi eða kunna að spila fótbolta, en það er ekki rétt. Við höfum fengið hingað fólk sem hefur aldrei snert fórbolta á ævinni, og það hefur hamast í drullunni og skemmt sér stórkostlega,“ segir Jón Páll Hreinsson, mýrarfláki Mýrarboltans í ár.

Það stefnir því allt í stórskemmtilegt Evrópumeistaramót í Mýrarbolta um verslunarmannahelgina. En þá er það bara stóra spurningin - hvernig er veðurspáin?

„Jú við erum búnir að fylgjast mjög vel með langtímaspánni. Okkur sýnist besta veðrið vera hér,“ segir Jón Páll.

„Já, og svo er skítaveður í Heimaey,“ segir Jóhann Bæring, í gamansömum tón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×