Lífið

Lofa hraðasta klukkutíma lífsins

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Byrjaði sem tölvuleikur - Jakob Hrafnsson og Hreggviður Magnússon, sölu- og markaðsstjóri RVK Escape.
Byrjaði sem tölvuleikur - Jakob Hrafnsson og Hreggviður Magnússon, sölu- og markaðsstjóri RVK Escape. Vísir/vilhelm
„Þetta er hraðasti klukkutími sem þú munt upplifa á ævinni,“ segir Jakob Hrafnsson, maðurinn á bak við Reykjavík Escape.

Um er að ræða nýja og ansi villta tegund afþreyingar. „Þriggja til fimm manna hópur er lokaður inni í herbergi þar sem er einhver leikmynd eða saga ásamt endalausum vísbendingum, gátum og þrautum sem lið þarf að vinna sig í gegnum til að komast út. Þau hafa 60 mínútur til þess en leikurinn er oft gerður að einhverju leyti drungalegur,“ segir Jakob en sem dæmi heitir einn leikurinn Prison Break, þar sem brotist er út úr fangaklefa.

Að sögn Jakobs eru sambærilegir leikir orðnir gríðarlega vinsælir erlendis. „Þetta er vinsælasta afþreyingin í París, Berlín, Bangkok og New York en þetta byrjaði allt sem tölvuleikur í Japan. Svo fyrir fimm eða sex árum þá hefur það gerst að einhver sagði: „Af hverju gerum við þetta ekki í alvörunni?“ Ég held að fyrsta verkefnið hafi opnað í Japan í kringum árið 2007, svo á seinustu tveimur árum hefur þetta greinilega orðið rosalega vinsælt erlendis, ef marka á til dæmis síður eins og Tripadvisor.“

Þrautirnar eru ansi erfiðar og flestir sem komast út úr herberginu gera það í blálokin. Jakob segir að um verndað umhverfi sé að ræða en það er ávallt neyðarlykill til staðar við hurðina sem er ekki hluti af leiknum og hægt er að grípa í ef eitthvað kemur upp á.

Stefnt er á að opna Reykjavík Escape í byrjun næsta árs en það verður í húsnæði gömlu Rúgbraugsgerðarinnar í Borgartúni 6. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×