Viðskipti innlent

Loðnukvótinn verði aukinn um 100 þúsund tonn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson hefur verið við loðnuleit.
Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson hefur verið við loðnuleit.
Hafrannsóknarstofnun mun mæla með því að aflamark í loðnu muni aukast um að minnsta kosti 100 þúsund tonn, eftir loðnumælingar sem rannsóknarskipið Árni Friðriksson hefur verið í frá 5. Janúar.

Skipið hefur mælt loðnu sem fundist hefur frá Vestfjörðum og að Norðurlandi. Jafnframt leitaði og mældi Birtingur NK loðnu frá Austfjörðum og að Norðurlandi dagana 16. – 22. Janúar síðastliðinn. Í frétt á vef Hafrannsóknarstofnunar segir að loðna hafi fundist mjög víða í leiðangrinum á öllu rannsóknasvæðinu nema úti fyrir Austurlandi og samanborið við mælingar fyrri ára sé útbreiðslan í ár meiri en sést hefur um langt árabil.

Mæliskekkja er há í þeim mælingum sem lokið er og því mun rannsóknaskipið Árni Friðriksson endurtaka mælingar á svæðinu frá Kolbeinseyjarhrygg og austur að Langanesi. Hafrannsóknarstofnun segir að haldist veður áfram þokkalegt á svæðinu megi gera ráð fyrir að þeim mælingum ljúki fyrri hluta næstu viku.

Í kjölfar mælinga á stærð loðnustofsins í september og október síðastliðnum lagði Hafrannsóknastofnun til að heildaraflamark vertíðarinnar yrði 260 þúsund tonn. Enda þótt endanlegum mælingum á stærð veiðistofns loðnu ljúki ekki fyrr en í næstu viku telur Hafrannsóknastofnun rétt að fram komi að mælingin mun leiða til þess að stofnunin leggi til aukningu í aflamarki fyrir vertíðina 2014/2015. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×