Innlent

Lóðir í Reykjanesbæ rifnar út á síðasta ári

Svavar Hávarðsson skrifar
Ef fram heldur sem horfir er að hefjast fordæmalaus uppbygging í Reykjanesbæ – sem tengist ekki síst fjölgun ferðamanna á Íslandi.
Ef fram heldur sem horfir er að hefjast fordæmalaus uppbygging í Reykjanesbæ – sem tengist ekki síst fjölgun ferðamanna á Íslandi. Mynd/Reykjanesbær/Oddgeir
Algjör viðsnúningur hefur orðið í eftirspurn eftir lóðum í Reykjanesbæ. Um árabil var engum lóðum úthlutað en nú eru allar lóðir eftirsóttar hvort sem þær eru ætlaðar undir íbúðar- eða atvinnuhúsnæði.

Eysteinn Eyjólfsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, segir merki um áhuga á lóðum í Reykjanesbæ hafa kviknað um mitt árið 2015, en í fyrra hafi skriðan farið af stað.

„Undanfarna mánuði höfum við úthlutað fjölda lóða undir allar tegundir húsnæðis, en einnig stórum lóðum fyrir flug- og þjónustutengda starfsemi sem samþykktar voru í síðasta deiliskipulagi. Þær fóru allar,“ segir Eysteinn. „Þetta er ánægjuleg þróun en þess utan fóru stórar lóðir við flugvöllinn.“

Eysteinn bendir á að skipulögð hafi verið íbúðabyggð í svokölluðu Hlíðahverfi – en svæðið er meðal heimamanna oftast kallað nikkel-svæðið fyrir ofan Reykjaneshöllina. Byggingarfélag Gylfa og Gunnars keypti það af Landsbankanum fyrir um 650 milljónir króna, en þar rísa á fjórða hundrað íbúðir. Þá eru komnar á deiliskipulag fjórar blokkir á Vatnsnesi fyrir 90 íbúðir og auglýstar hafa verið 72 íbúðir við Keflavíkina sjálfa og fleiri við Nesvelli.

Eysteinn Eyjólfsson
„Við eigum lóðir fyrir áætlaða vaxtarþörf okkar til ársins 2019. Eins höfum við endurskipulagt aðalskipulag sveitarfélagsins, sem er að fara í auglýsingu, og þar verður leitast við að þétta byggð. Reykjanesbær fór seint inn í byggingarbóluna miklu fyrir hrun, þannig að við áttum skipulögð hverfi þar sem gatna- og holræsagerð, auk annarrar uppbyggingar, var lokið. Þau eru að byggjast upp núna en þar hafa legið ónotaðar fjárfestingar í næstum því áratug,“ segir Eysteinn. „Þetta segir allt um ástandið sem hér var eftir hrun, en ég held að við höfum ekki úthlutað lóð hér í Reykjanesbæ í ein þrjú ár.“

Þegar tölur, sem Reykjanesbær tók saman fyrir Fréttablaðið um lóða­úthlutanir, eru skoðaðar, fást orð Eysteins staðfest. Engum lóðum var úthlutað árin 2010, 2012 og 2013 en aðeins tveimur einbýlishúsalóðum árið 2009. Árið 2011 var einni raðhúsalóð og einni lóð fyrir atvinnuhúsnæði úthlutað – alls fjórum lóðum á fimm ára tímabili frá 2009 til 2013. Tölur ársins 2016 segja hins vegar allt aðra sögu – svo vægt sé til orða tekið. 49 lóðum var úthlutað á fáeinum mánuðum; sautján fyrir einbýli, átta undir raðhús og fimm undir parhús. Þá eru ótaldar nítján lóðir undir atvinnuhúsnæði sem flestar eru á svæðinu Flugvöllum – en þessum lóðum var úthlutað á nokkrum dögum eftir að þær stóðu til boða.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í október hefur staðan á fasteignamarkaði á Suðurnesjum gjörbreyst á stuttum tíma en eftirspurn eftir eldra húsnæði er nú meiri en framboð. Þinglýstir kaupsamningar á fyrstu níu mánuðum síðasta árs voru til dæmis helmingi fleiri en allt árið 2013, eða 361, sýna tölur frá Þjóðskrá Íslands. Árið eftir voru þeir 522 og 733 árið 2015. Á síðasta ári voru þeir nálægt þúsund talsins.

Á sama tíma er fordæmalausri fjölgun starfa spáð á svæðinu á næstu árum og áratugum, með fyrirsjáanlegum þrýstingi á fasteignamarkaðinn. Því er spáð að fjölgun starfa á Keflavíkurflugvelli næstu tvo áratugina jafngildi að meðaltali einu álveri árlega – eða rúmlega 400 manns. Rætist þessi spá verður það gríðarlega flókið verkefni fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum að mæta þeirri fólksfjölgun sem um ræðir og virðist án fordæma.

Í nýlegri greiningu Íslandsbanka segir einnig að laun hafi hækkað á bilinu tíu til 22 prósent eftir landshlutum frá 2010, og hefur mesta launahækkunin átt sér stað á Suðurnesjum, eða 22 prósent, en þar á eftir kemur höfuðborgarsvæðið með sautján prósent. Sé launaþróun á Suðurnesjum skoðuð í samhengi við þróun á íbúðaverði sést að laun hafa hækkað um 29 prósentustig umfram íbúðaverð, segir þar. Skal hafa hugfast að árið 2009 bankaði atvinnuleysi á Suðurnesjum undir 20 prósenta markið en mælist varla í dag.

Ef spár Isavia og fleiri um fjölgun farþega og nauðsynlega uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli ganga eftir mun það hafa mikil áhrif á öll sveitarfélögin á Suðurnesjum. Sem viðbragð við spánni lagði Heklan – Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja til að unnin yrði nákvæm innviðagreining á svæðinu svo sveitarfélögin geti unnið stefnumörkun um atvinnu- og samfélagsuppbyggingu til að mæta þeim miklu breytingum sem fyrirsjáanlegar eru.

Talið er líklegt að íbúar á Suðurnesjum verði tæplega 35.000 árið 2030 og hafi þá svo gott sem náð íbúafjölda Norðausturlands – annars þéttbýlasta landsvæðisins hérlendis. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×