Enski boltinn

Llorente og Chadli á innkaupalista Swansea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/epa
Swansea City hefur látið lítið að sér kveða á félagskiptamarkaðinum í sumar en nú gæti orðið breyting á.

Samkvæmt heimildum Sky Sports hefur Swansea augastað á tveimur sóknarmönnum; Spánverjanum Fernando Llorente og Belganum Nacer Chadli.

Sjá einnig: Gylfi Þór og félagar fá lægstu einkunn fyrir frammistöðuna á markaðinum

Llorente er ætlað að fylla skarð Bafetimbi Gomis sem var lánaður til Marseille á dögunum. Llorente er leikmaður Sevilla í dag hann hefur einnig leikið með Athletic Bilbao og Juventus.

Þá hefur Llorente leikið 24 landsleiki fyrir Spán og skorað sjö mörk. Hann var hluti af spænska liðinu sem varð heimsmeistari 2010 og Evrópumeistari tveimur árum síðar.

Chadli, sem er 26 ára kant- og sóknarmaður, hefur leikið með Tottenham Hotspur frá 2013. Hann lék alls 41 leik fyrir Tottenham á síðasta tímabili en var aðeins 10 sinnum í byrjunarliðinu í ensku úrvalsdeildinni.

Chadli hefur leikið 32 landsleiki fyrir Belgíu en hann var ekki valinn í belgíska hópinn fyrir EM í Frakklandi.

Swansea endaði í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili eftir góðan endasprett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×