Lífið

Ljótir hálfvitar verða gulldrengir

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hljómsveitin Ljótu hálfvitarnir var hæstánægð með gullplötuna sína.
Hljómsveitin Ljótu hálfvitarnir var hæstánægð með gullplötuna sína. vísir/daníel
„Þetta er mjög skemmtilegt, sérstaklega vegna þess að platan kom út árið 2007 og því fyndið að fá þessa viðurkenningu svona mörgum árum seinna,“ segir Snæbjörn Ragnarsson, meðlimur í hljómsveitinni Ljótu hálfvitunum.

Hún hlaut á dögunum gullplötu fyrir frumraun sína sem kom út árið 2007 en afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn á Café Rosenberg.

„Við óskuðum eftir því að þetta færi fram á Rosenberg því staðurinn hefur alltaf spilað stórt hlutverk í sögu sveitarinnar. Doddi á Rosenberg fékk allar gullplöturnar og lofaði að skrúfa þær upp á vegg fyrir giggið okkar þar í kvöld,“ segir Snæbjörn léttur í lundu.

Ljótu hálfvitarnir er með níu meðlimi innanborðs, sem hafa allir verið í sveitinni frá upphafi. „Mórallinn er ótrúlega góður, þetta er líklega einn skemmtilegasti félagskapur sem fyrirfinnst í veröldinni. Við höfum alltaf spilað reglulega en tókum reyndar pásu í um eitt ár, hér um árið.“

Sveitin hefur gefið út fjórar breiðskífur og fyrsta platan hefur selst í yfir fimm þúsund eintökum, sem gefur gullplötu á Íslandi.

Sveitin er að norðan, sjö meðlimir teljast til Húsvíkinga en tveir eru úr sveitunum í kring. Þó búa allir meðlimirnir í höfuðborginni í dag.

Hljómsveitin vinnur að smíði nýrra laga en möguleg plötuútgáfa er næsta vor.

Nafn sveitarinnar kom upp þegar æstur áheyrandi tjáði meðlimum partísveitar, sem rekja má til upphafs hljómsveitarinnar, að þeir væru nú ljótu hálfvitarnir.

Ljótu hálfvitarnir fagna gullplötunni með tónleikum á Café Rosenberg í kvöld og þá verður sveitin með tónleika á Græna hattinum á Akureyri um hvítasunnuhelgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×