Innlent

Ljósmyndin af Collingwood?

Kristján Már Unnarsson skrifar
Er maðurinn á myndinni listmálarinn Collingwood? Hann fór um Ísland árið 1897 með íslenskum vini sínum.
Er maðurinn á myndinni listmálarinn Collingwood? Hann fór um Ísland árið 1897 með íslenskum vini sínum.
Ábendingar um torfbæjarmyndina halda áfram að berast. Engin þó enn þess eðlis að hægt sé að skera úr um hvar staðurinn er á landinu. „Heitustu“ staðirnir með flestar ábendingar til þessa hafa verið í kringum Flúðir í Hrunamannahreppi, í Norðurárdal og Þverárhlíð í Borgarfirði og Reynistaður í Skagafirði.

Spurt er hvort greina megin fjallsbrún Tindastóls ofarlega vinstra megin á myndinni og Hegranes hægra megin, áin sé þá Sæmundará, einnig nefnd Staðará. Bóndinn á Reynistað, Helgi Sigurðsson, segir hins vegar að þetta sé ekki Reynistaður, umgjörðin eigi ekki við.

Er þetta í Skagafirði? Sést í fjallsbrún Tindastóls vinstra megin og Hegranes hægra megin?Ljósmyndari/Óþekktur.
Hjá Ljósmyndasafni Íslands á Þjóðminjasafninu þekkja menn ekki til uppruna myndarinnar. Inga Lára Baldvinsdóttir safnvörður giskar þó á að myndin sé frá tímabilinu 1895-1905. 

Nýjar ábendingar eru meðal annars fjaran fyrir neðan Melasveit, Kaldárhöfði við Sog, Laugarbakki í Miðfirði, Ægissíða á Rangárvöllum, Skaftafell og Straumarnir við ármót Hvítár og Norðurár. Þá er spurt hvort menn séu vissir um að myndin sé yfir höfuð frá Íslandi.

Ein athyglisverðasta tilgátan er frá Ásbirni Torfasyni, sem hallast að því að maðurinn á myndinni sé breski listmálarinn W. G. Collingwood. Hann ferðaðist um Ísland árið 1897 með íslenskum vini sínum, dr. Jóni Stefánssyni, og málaði um 300 vatnslitamyndir. Sjálfur giskar Ásbjörn á að staðsetning torfbæjarins sé í Dölunum, við Hvammsfjörð. 

Inga Lára hjá Þjóðminjasafninu segir að Collingwood hafi verið með myndavél með sér í för. Það hafi verið frumraun hans við ljósmyndatökur og myndirnir beri þess nokkur merki. Afrit af myndunum eru varðveitt á safninu.

Til vinstri er stækkuð mynd af manninum á ókunnu ljósmyndinni. Collingwood er á myndinni hægra megin en hún var tekin í Íslandsför hans árið 1897.
Collingwood merkti inn á Íslandskort í tölusettri röð staðina þar sem hann málaði myndirnar. Á því má sjá að hann fór um Suðurland, Borgarfjörð, Snæfellsnes, Dali, Vestfirði, Húnavatnssýslur, Skagafjörð og Eyjafjörð og kom svo loks við á Vopnafirði og Seyðisfirði. Vatnslitamyndir hans eru varðveittar á Þjóðminjasafninu.

Íslandskortið þar sem sjá má staðina sem William Gershom Collingwood tölusetti á ferð sinni árið 1897. Myndin er úr bókinni Á söguslóðum.
Hannesi Lárussyni á torfbæjarsetrinu í Flóa finnst þessi tilgáta Ásbjörns ekki ólíkleg og segir að það væri óneitanlega skemmtilegt ef þetta reyndist vera mynd af Collingwood. Hann spyr hvort einhverjir lumi á fleiri vísbendingum úr Dölunum og Hvammsfirði. Hannes telur byggingarlag húsanna afskrifa Skagafjörð, Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur.

Jóhannes Baldvin Jónsson landnýtingarfræðingur sendi áhugaverða greiningu: 



„Ég kem bænum ekki fyrir mig, en tel myndina óspeglaða og ýmsar vísbendingar í myndinni um höfuðáttir og náttúrufar sem gætu hjálpað til við ráðningu gátunnar.

Rök:

1. Skugginn sem varpast af hestum og manni er stuttur. Hornið sem myndast milli fremri hestsins og skuggans á mölinni er c.a. 45-47°. Það er nærri hástöðu sólar að sumarlagi. Hún er því að líkindum tekin um eða eftir kl 13.

2. Í slakkanum frá bæ og að ánni er stór kálgarður. Kálgarðar eru ræktarlegastir snúi þeir mót suðri eða vestri, en þannig njóta þeir mestrar sólarinngeislunar. Það væri mun síðra að láta garðinn standa í svona miklum halla mót austri. Garðurinn hallar mjög líklega á mót suðvestri.

Reynist kenningin rétt ætti myndasmiðurinn að hafa snúið linsu mót austri og er staðsettur vestan við á sem rennur í norður-suður stefnu á þessum slóðum. Bæjarburstirnar raða sér þá í norður-suður stefnu.

3. Áreyrin sem ljósmyndarinn er staddur á virðist ljós, mögulega vegna rýólíts (líparíts) og vatnsfallið er augljóslega dragá sem getur haft mjög breytilegt rennsli. Það útilokar vatnsföll á borð við Brúará í Árnessýslu sem er dæmi um mjög eindregna lindará og vart hægt að finna áreyrar svo neinu nemi við bakka hennar.

Ljósgrýtið (rýólítið) bendir einnig til þess að áin sé nærri einhverri fornri megineldstöð, en það er gjarnan áberandi nærri fornum og mikið rofnum eldstöðvum,“ sagði Jóhannes B. Jónsson landnýtingarfræðingur. 



Óskir hafa borist um að myndin verði sýnd spegluð. Ein kenningin er nefnilega sú að myndin hafi upphaflega verið framkölluð öfugt og það geri mönnum erfiðara fyrir að þekkja staðinn. Þá lítur staðurinn svona út:

Myndin spegluð. Er þetta leiðin að lausn ráðgátunnar að spegla myndina?

Tengdar fréttir

Hvar á landinu var þessi bær?

Þetta er sú ráðgáta sem Hannesi Lárussyni á torfbæjarsetrinu við Selfoss gengur hvað erfiðast að fá svarað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×