Handbolti

Ljónin hans Guðmundar fóru létt með Kiel og hirtu toppsætið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Guðmundsson fagnaði sætum sigri.
Guðmundur Guðmundsson fagnaði sætum sigri. Vísir/Getty
Guðmundur Guðmundsson fagnaði sætum sigri með Ljónunum sínum í kvöld er liðið lagði Alfreð Gíslason og lærisveina hans í meistaraliði Kiel, 29-26, í þýsku 1. deildinni í handbolta.

Löwen tók frumkvæðið strax í byrjun leiks og mátti sjá hvort liðið vildi sigurinn meira. Það var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14-12, en stakk svo af í byrjun þess síðari.

Með frábærri vörn og Nicklas Landin í þrumustuði í markinu komust Ljónin í 17-13 í byrjun seinni hálfleiks og litu ekki um öxl. Mestur varð munurin átta mörk, 27-19, en gestirnir löguðu aðeins stöðuna undir lokin.

Alexander Petersson komst ekki á blað hjá Löwen en hann varð fyrir meiðslum snemma leiks. Stefán Rafn Sigurmannsson kom ekkert við sögu. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk fyrir Kiel og Aron Pálmarsson fjögur mörk.

Með sigrinum komst Rhein-Neckar Löwen á toppinn í þýsku deildinni en liðið jafnaði Kiel að stigum. Þau eru bæði með 49 stig en Ljónin með betra markahlutfall.

Nicklas Landin var frábær.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×