Erlent

Ljón beit ferðamann til dauða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VÍSIR/AFP
Bandarísk kona lést er ljón stökk inn um glugga bíls í Suður-Afríku í dag.

Árásin átti sér stað í Lion Park-garðinum skammt frá höfuðborginni Jóhannesarborg en samferðamaður konunnar slasaðist einnig alvarlega. Talið er að þau hafi ekið um garðinn með alla glugga bílsins opna.

Scott Simpson, starfsmaður garðsins, segir að nákvæm atburðarrás liggi ekki fyrir að svo stöddu en talið er að ljónið hafi bitið konuna með fyrrgreindum afleiðingum. Maðurinn sem ferðaðist með henni er sagður hafa slasast í átökum við ljónið er hann reyndi að koma konunni til bjargar.

Lion Park-garðurinn í Suður-Afríku er vinsæl áfangastaður ferðamannaMYND/SKJÁSKOT
„Starsfólkið reyndi hvað það gat til að koma ljóninu úr bílnum. Sjúkrabílar voru samstundis kallaðir á staðinn en allt kom fyrir ekki,“ sagði Simpson í samtali við þarlenda fjölmiðla.

Hann bætti við að þeim sem sæki garðinn heim sé ráðlagt að hafa glugga bíla sinna lokaða öllum stundum.

„Við gerum öllum þetta mjög ljóst. Við höfum komið upp skiltum á víð og dreif sem minna fólk á að hafa gluggana lokaða. Þá látum við fólk fá dreifimiða sem imprar ennfremur á skilaboðunum þegar það kemur inn í garðinn. Í skil ekki hvers vegna fólk heldur þá að það sé í lagi að hafa gluggana opna,“ sagði Simpson.

Árásin í dag er sú þriðja í garðinum á síðastliðnum fjórum mánuðum.

Hér að neðan má sjá myndband úr garðinum, sem tekið var upp í mars síðastliðnum, en í því sést hvernig ljón í garðinum opnar bílhurð tökumannsins svo mikil hætta skapast. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×