Enski boltinn

Liverpool saknar Henderson sárlega en hann verður líklega ekki með gegn Arsenal

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jordan Henderson er meiddur.
Jordan Henderson er meiddur. vísir/getty
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, var ekki með sínum mönnum í gær þegar þeir fengu 3-1 skell gegn fráfarandi Englandsmeisturum Leicester.

Liverpool-liðið spilaði skelfilega nánast frá fyrstu mínútu en Leicester, sem ekkert hefur getað í vetur, lék sér að lærisveinum Jürgens Klopps sem eiga nú í hættu á að missa af Meistaradeildarsæti.

Liverpool á stórleik fyrir höndum á laugardaginn þegar liðið mætir Arsenal en bæði lið eru í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti. Henderson missir líklega af þeim leik líka vegna meiðsla sem hann varð fyrir á æfingu.

„Það lítur út fyrir að hann verði ekki klár í leikinn á móti Arsenal. Þannig er útlitið núna en við sjáum til,“ sagði Jürgen Klopp eftir tapið í gærkvöldi.

Liverpool-menn sakna fyrirliða síns sárlega eins og kom bersýnilega í ljós í upphitun á Sky Sports fyrir leikinn í gær. Þar var sýnt skilti með gengi Liverpool þegar Henderson er í liðinu og svo þegar hann er fjarverandi.

Tölfræðin er sláandi en Liverpool hefur unnið 53 prósent þeirra 180 leikja sem Henderson hefur spilað. Í þeim 35 sem hann hefur ekki spilað síðan hann gekk í raðir félagsins hefur Liverpool aðeins unnið 26 prósent leikjanna.

Þegar Henderson er með skorar Liverpool 1,9 mörk í leik en fær á sig 1,2 mörk í leik. Án Hendersons skorar Liverpool aðeins 1,5 mörk í leik og fær á sig 1,5 mörk að meðaltali í leik.

Ef Liverpool vinnur ekki á laugardaginn getur liðið misst Manchester United upp fyrir sig en erkifjendurnir eiga svo einnig leik til góða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×