Fótbolti

Liverpool mætir Dortmund í átta liða úrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. Vísir/Getty
Enska úrvalsdeildarliðið Liverpool lenti á móti þýska liðinu Borussia Dortmund þegar dregið var í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í dag.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var stjóri Borussia Dortmund í átta ár og mætir því sínum gömlu lærisveinum.

Borussia Dortmund hefur unnið alla fjóra leiki sína í útsláttarkeppninni til þessa og sló Tottenham sannfærandi út úr sextán liða úrslitunum í gær.

Seinni leikur Liverpool og Borussia Dortmund fer fram á Anfield í Liverpool.

Meistarar undanfarinna tveggja ára, Sevilla frá Spáni, mæta löndum sínum í Athletic Bilbao en Spánn á þrjú lið í átta liða úrslitunum.

Fyrri leikurinn fer fram fimmtudaginn 7. apríl og seinni leikurinn verður síðan spilaður viku síðar. Liðið sem var dregið á undan spilar fyrri leikinn á heimavelli.

Liðin sem mætast í átta liða úrslitunum eru:

Sporting Braga (Portúgal) - Shakhtar Donetsk (Úkraína)

Villarreal (Spánn) - Sparta Prag (Tékkland)

Athletic Bilbao (Spánn) - Sevilla (Spánn)

Borussia Dortmund (Þýskaland) - Liverpool (England)


Tengdar fréttir

Jürgen Klopp vill ekki mæta Borussia Dortmund

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool er ekki spenntur fyrir því að mæta sínum gömlu lærisveinum í Borussia Dortmund þegar dregið verður í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×