Enski boltinn

Liverpool greiddi umboðsmönnum tæpa þrjá milljarða

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það kostar sitt að byggja upp nýtt lið.
Það kostar sitt að byggja upp nýtt lið. Vísir/Getty
Félög í ensku úrvalsdeildinni greiddu umboðsmönnum knattspyrnumanna 130 milljónir punda - jafnvirði tæpra 26 milljarða króna - undanfarið ár. Þar af greiddi Liverpool mest.

Þetta kom fram í enskum fjölmiðlum í dag en um fimmtán milljóna punda aukningu er að ræða frá síðasta ári. Alls þurfti Liverpool að greiða umboðsmönnum 14,3 milljónir punda, tæpa þrjá milljarða króna, vegna skjólstæðinga þeirra.

Manchester félögin koma þar skammt á eftir - United með 13,8 milljónir punda og City með 12,4 milljarða. Chelsea og Arsenal greiddu bæði 11,9 milljónir punda en þessi lið eru í nokkrum sérflokki. Nýliðar Watford greiddu minnst eða um 1,6 milljónir punda.

Til samanburðar má nefna að félög í ensku B-deildinni greiddu umboðsmönnum 26,1 milljón punda. Lið í C-deildinni greiddu 3,2 milljónir og D-deildarlið aðeins eina milljón punda.

Umboðsmenn fá ekki aðeins greitt þegar skjólstæðingar þeirra skipta um lið heldur einnig þegar þeir skrifa undir nýja samninga við núverandi lið sín. Á síðasta ári keyptu liðin í efstu deild á Englandi 172 nýja leikmenn og 542 skrifuðu undir nýja samninga. 573 leikmenn voru svo seldir eða lánaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×