Enski boltinn

Liverpool goðsagnirnar mæta Real Madrid á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robbie Fowler verður fyrirliði Liverpool-liðsins.
Robbie Fowler verður fyrirliði Liverpool-liðsins. Vísir/Getty
Margir gamlir leikmenn Liverpool klæðast Liverpool-treyjunni aftur á Anfield á næsta ári þegar Liverpool tekur á móti Real Madrid í góðgerðaleik.

Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Liverpool og Real Madrid mætast í svokölluðum „Corazon Classic“ en þetta er endurtekning á góðgerðaleik félaganna frá því í júní 2015 á Santiago Bernabeu.

Liverpool komst í 2-0 í leiknum fyrir einu og hálfu ári síðan en Real Madrid snéri leiknum við og vann á endanum 4-2 sigur fyrir framan sjötíu þúsund áhorfendur á Bernabeu.





Nú hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn en að þessu sinni fer hann fram á Anfield, heimavelli Liverpool. Leikurinn fer fram laugardaginn 25. mars 2017 en þetta er landsleikjahelgi og því ættu stuðningsmenn Liverpool að geta fjölmennt á völlinn til að sjá gömlu stjörnurnar sína.

Robbie Fowler verður fyrirliði Liverpool í leiknum og Ian Rush, markhæsti leikmaður Liverpool frá upphafi, verður spilandi knattspyrnustjóri liðsins.

Meðal þeirra Liverpool-manna sem hafa staðfest komu sína eru menn eins og Gary McAllister, Luis Garcia, Jamie Carragher, Patrik Berger, Salif Diao, Jerzy Dudek, Stephane Henchoz, Jason McAteer, Vladimir Smicer, David Thompson, Bjorn Tore Kvarme, Sander Westerveld, Dietmar Hamann, John Aldridge, John Arne Riise, Phil Babb, Daniel Agger og Michael Owen.

Það verður líka fullt af gömlum kempum í liði Real Madrid eða leikmenn eins og þeir Roberto Carlos, Emilio Butragueño, Luis Figo og Steve McManaman.

Steve McManaman og Michael Owen gætu spilað með báðum félögum enda léku þeir á sínum tíma með bæði Liverpool og Real Madrid. Jerzy Dudek fór líka til Real Madrid eftir sex ár hjá Liverpool en var þá varamarkvörður á Bernabeu.

Allur ágóði af þessum leik mun fara til LFC Foundation sem eru opinber góðgerðasamtök félagsins. Það mun kosta 20 pund fyrir fullorðna og 5 pund fyrir krakka að fara á leikinn eða 2800 og 700 krónur íslenskar. Leikurinn verður auk þess sýndur beint á LFCTV.

Goðsagnir Liverpool og Real Madrid.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×