Enski boltinn

Liverpool á toppnum í einkadeild toppliðanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, með lærisveinum sínum.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, með lærisveinum sínum. Vísir/Getty
Liverpool náði ekki að vinna Manchester United á Old Trafford í gær þrátt fyrir að vera yfir í 57 mínútur en hélt áfram sínu striki að tapa ekki á móti bestu liðum e ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool er eina liðið af efstu sex á þessu tímabili sem hefur ekki tapað í innbyrðisleikjum á móti liðunum sem eru á topp sex. Lærisveinar Jürgen Klopp hafa unnið þrjá leiki af sex og gert þrjú jafntefli.

Liverpool hefur alls náð í tólf stig í sex leikjum á móti bestu liðunum eða þremur meira en Chelsea og fjórum meira en Tottenham.

Liverpool vann leiki sína á móti Arsenal á útivelli, Chelsea á útivelli og      Manchester City á heimavelli en gerði jafntefli í báðum leikjum sínum á móti Manchester United og svo á móti Tottenham á útivelli.

Arsenal er aftur á móti með slakasta árangurinn á móti bestu liðunum en lærisveinar Arsene Wenger hafa aðeins unnið einn af fimm leikjum sínum á móti topp sex.

Þrátt fyrir góðan árangur á móti bestu liðunum þá er Liverpool samt sjö stigum á eftir toppliði Chelsea. Ástæðan eru tapleikir á móti liðum eins og Bournemouth og Burnley.

Topplið Chelsea hefur tapað þremur af sex leikjum sínum á móti bestu liðunum en það eru leikir á móti Liverpool á heimavelli, Arsenal á útivelli og Tottenham Hotspur á útivelli. Þetta eru einu tapleikir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í vetur.



Einkadeild toppliðanna 2016-17

(Árangur í innbyrðisleikjum liða á topp 6)

1. Liverpool 12 stig í 6 leikjum  [3 sigrar, 3 jafntefli, 0 töp]

2. Chelsea 9 stig í 6 leikjum  [3 sigrar, 0 jafntefli, 3 töp]

3. Tottenham 8 stig í 6 leikjum  [2 sigrar, 2 jafntefli, 2 töp]

4. Man City  6 stig í 5 leikjum  [2 sigrar, 0 jafntefli, 3 töp]

5. Man Utd  6 stig í 6 leikjum  [1 sigrar, 3 jafntefli, 2 töp]

6. Arsenal  5 stig í 5 leikjum  [1 sigur, 2 jafntefli, 2 töp]

(Sky Sports tók saman)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×