Viðskipti erlent

Litháar fá grænt ljós á upptöku evru

Atli Ísleifsson skrifar
Litháar munu kveðja núverandi gjaldmiðil sinn, litas, um áramót og notast eftir það við evru.
Litháar munu kveðja núverandi gjaldmiðil sinn, litas, um áramót og notast eftir það við evru. Vísir/AFP
Litháen fékk fyrr í dag síðasta græna ljósið á að fá að taka upp evru nú um áramót. Landið verður nítjánda aðildarríki ESB til að taka um sameiginlega mynd sambandsins.

Leiðtogar aðildarríkja sambandsins, fjármálaráðherrar, Seðlabanki Evrópu og Evrópuþingið hafa nú öll veitt samþykki sitt. Ráðherrar aðildarríkja ESB ákváðu í dag að skiptigengi núverandi gjaldmiðils Litháa, litas, yrði 3,4528 gagnvart evru þegar nýi gjaldmiðillinn verður tekinn upp 1. janúar 2015.

Algirdas Butkevicius, forsætisráðherra Litháens, fagnaði þessum sögulegu tíðindum og sagði að land sitt muni styðja við bakið á gjaldmiðlinum með „orku, framsýni og miklum einhug“.

Utanríkisráðherrann Linus Linkevicius sagði Litháa verða trausta aðila evrusvæðisins. „Evran er ekki bara mynt eða hlutur úr málmi. Fyrir okkur snýst þetta um að vera í réttum félagsskap.“

Litháen verður síðasta Eystrasaltsríkið til að taka upp evru. Eistar tóku upp gjaldmiðilinn árið 2006 og Lettar fyrr á þessu ári. Lithár sóttu fyrst um að fá að taka upp evru árið 2006, en stóðust á þeim tímapunkti ekki kröfur sambandsins um stöðugt verðlag.

Sandro Gozi, ráðuneytisstjóri ráðuneytis Evrópumála Ítalíu sem nú fer með formennsku í sambandinu, sagði upptökuna merki um að evran þróist og virki enn.

Á vef Baltic Times segir að klukku verði komið upp fyrir utan Seðlabanka Litháens í höfuðborginni Vilníus þar talið verður niður til 1. janúar næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×