Erlent

Líta á ferð bílalestar sem innrás í Úkraínu

Randver Kári Randversson skrifar
Vísir/AFP
Ákvörðun Rússa um að senda meira en 100 vörubíla inn í austurhluta Úkraínu án leyfis úkraínskra yfirvalda hefur mætt hörðum viðbrögðum á Vesturlöndum. Úkraínumenn líta á ferð bílalestarinnar sem brot á fullveldi sínu og innrás inn í landið.

Bílarnir höfðu beðið við landamærin að Úkraínu í meira en viku, en grunur lék á að í þeim væru vopn ætluð aðskilnaðarsinnum í austurhluta landsins. Tollverðir hófu að skoða þá síðdegis á fimmtudag, en í dag ákváðu Rússar að senda bílalestina af stað inn í Úkraínu áður en búið var að framkvæma tollskoðun á þeim öllum. Rússar halda því hins vegar fram að bílarnir flytji aðeins hjálpargögn, svo sem barnamat og kornvörur. Á vef BBC kemur fram að fyrstu vörubílarnir séu þegar komnir að borginni Luhansk, sem er á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna.

Sameinuðu þjóðirnar héldu neyðarfund vegna málsins í dag og hafa Bandaríkin og Evrópusambandið farið fram á að bílunum verði snúið til baka. Þá telja fulltrúar NATO að þetta muni auka á spennuna á svæðinu enn frekar. Í harðorðri yfirlýsingu sagði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, að atburði dagsins bæri að taka mjög alvarlega, einkum  í ljósi þess að Rússar hafi allt frá miðjum ágústmánuði stóraukið hernaðarleg afskipti sín af átökunum í austurverðri Úkraínu.

Alls hafa yfir 2000 manns látist og yfir 330 þúsund manns yfirgefið heimili sín vegna átakanna í landinu sem nú hafa staðið í um fjóra mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×