Innlent

Listasýning sett upp á salerni

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Í Núllinu Kvennasalernið er 37 fermetrar.Mynd/Reykjavíkurborg
Í Núllinu Kvennasalernið er 37 fermetrar.Mynd/Reykjavíkurborg
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær ósk Nýlistasafns Íslands um leigu á gamla kvennasalerninu í Bankastræti 0. Nota á aðstöðuna til sýningarhalds.

Umrædd not af Bankastræti 0 hafa áður komið til umræðu. Í apríl 2012 sagði Fréttablaðið frá áhuga listamanna á að byggingarfulltrúi leyfði afnot af húsnæðinu sem þá hafði verið lokað um árabil.

„Ef leyfi fæst munum við síðan auglýsa aðstöðuna til leigu á svipaðan hátt og til dæmis gamla turninn á Lækjartorgi,“ sagði þá Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi á framkvæmda- og eignasviði við Fréttablaðið.

Í umsögn menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar segir að Nýlistasafnið sé einstakt í menningarflóru borgarinnar. Safnið sé eitt elsta starfandi listamannarekna listasafn í Evrópu og að safnið sé sýningarstaður, vettvangur uppákoma, umræðna og gjörninga. Auk sýninga og viðburða safnar, varðveiti og miðli Nýlistasafnið heimildum um samtímalistasögu. Þá gæti það kallast skemmtilega á við Nýlistasafnið í Breiðholti.

Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, segir í umsögn sinni að Listasafnið styðji áform um að breyta kvennasnyrtingunni í sýningarrými fyrir samtímalist. Jarðhúsið sé óvenjulegt rými og að erfitt sé að ímynda sér hvaða starfsemi gæti nýtt það á eins skapandi og skemmtilegan hátt og Nýlistasafnið. Listamenn sem safnið starfi með séu vanir að gera staðbundin verk gagngert fyrir ákveðin rými og að færa sér í hag aðstæður sem myndu reynast öðrum fjötur um fót. Þá sé sýningarrýmið líklegt til að vekja nýjar hugmyndir og örva unga listamenn til nýrra tilrauna. Fyrirkomulagið myndi styðja menningarlíf í miðbænum og kynna Reykjavík sem framsækinn og áræðinn vettvang óvæntra tækifæra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×