Innlent

Líst illa á tillögu um að flytja Rarik á Sauðárkrók

Haraldur Guðmundsson skrifar
Megináhersla Rarik er á raforkudreifingu en um 90 prósent af dreifikerfum í sveitum landsins eru í umsjá fyrirtækisins.
Megináhersla Rarik er á raforkudreifingu en um 90 prósent af dreifikerfum í sveitum landsins eru í umsjá fyrirtækisins.
„Mér hugnast þessi tillaga ekki. Fyrirtækið er með starfsstöðvar á 22 stöðum á landinu og í mínum huga verður áfram þörf fyrir að stærsta skrifstofan verði í Reykjavík,“ segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, um tillögu Norðvesturnefndar ríkisstjórnarinnar um að flytja höfuðstöðvar fyrirtækisins á Sauðárkrók.

Tryggvi Þór Haraldsson
Nefndin hefur sent 26 tillögur til ríkisstjórnarinnar um hvernig efla megi fjárfestingar, byggðaþróun og fjölga atvinnutækifærum á Norðurlandi vestra. Fréttastofa RÚV greindi frá því á laugardag að tillaga um að færa höfuðstöðvar Rarik á Sauðárkrók væri á meðal þeirra.

Um tvö hundruð manns starfa hjá fyrirtækinu og þar af um fimmtíu í höfuðstöðvunum í Reykjavík. Tryggvi segir Sauðárkrók ekki vera ákjósanlega staðsetningu fyrir höfuðstöðvar fyrirtækisins. 

„Ég tel til dæmis að það sé meira framboð af háskólamenntuðu fólki í Reykjavík og það er í raun og veru ástæðan fyrir því af hverju ég tel að stærsta skrifstofan eigi að vera í Reykjavík. En þetta er auðvitað á endanum ákvörðun stjórnvalda og ef þau ákveða að fara einhverja svona leið þá hljóta þau að velta slíkum hlutum fyrir sér. Mér finnst þó alls ekki tímabært að fara á taugum yfir þessu eins og staðan er í dag,“ segir Tryggvi. 

Hann bendir á að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem tillaga um að flytja Rarik norður er lögð fram. Árin 1996 og 2000 hafi meðal annars staðið til að færa höfuðstöðvarnar til Akureyrar. 

„Það er ekkert langt síðan að hugmyndin um Sauðárkrók kom fyrst upp frá einhverri sambærilegri nefnd. Það heyrði ég fyrst fyrir einhverjum fimm árum þannig að þetta hefur áður komið upp.“ 

Stefán Vagn Stefánsson
Tillögur Norðvesturnefndarinnar voru kynntar ríkisstjórninni á föstudag. Nefndin var skipuð í maí síðastliðnum og Stefán Vagn Stefánsson, oddviti framsóknarmanna í Skagafirði, er formaður hennar. 

„Þetta eru alls 26 tillögur og ég vil síður tjá mig um þær að svo stöddu. Við erum búin að skila þeim inn til ríkisstjórnarinnar og þær eru þar. Verkefni okkar hlýtur þá að vera að fara yfir þetta með oddvitum ríkisstjórnarflokkanna og vinna í þessum tillögum áfram og setja í framkvæmd þær sem samstaða er um að farið verði í. Það er næst á dagskrá nefndarinnar,“ segir Stefán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×