Innlent

Lilja vill í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. Vísir/Eyþór
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, vill að hér verði mynduð ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Hún segir tímabært að á Íslandi verði nokkuð breið stjórn, ekki síst fyrir þær sakir að þrátt fyrir að vel gangi efnahagslega þá hafi þjóðin ekki enn alveg jafnað sig á efnahagshruninu sem hér varð.

Þetta kom fram í viðtali við Lilju í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar ræddi hún þær formlegu og óformlegu stjórnarmyndunarviðræður sem nú eru í gangi. Annars vegar er um að ræða formlegar viðræður Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar og hins vegar óformlegar viðræður Framsóknarflokks og Vinstri grænna en frá þeim var greint í gær.

„Við höfum verið að tala saman, við höfum verið til að mynda að ræða við VG og skoða hvort það væru mögulega einhverjir samstarfsfletir hjá okkur og það vill nú bara þannig til að það er mjög margt spennandi og framsækið þegar þessir flokkar fara að ræða saman,“ sagði Lilja í Morgunútvarpinu í dag. Hún sagði margt sem sameinaði flokkana en vildi ekki fara nánar út í það vegna þeirra formlegu viðræðna sem nú eru í gangi.

Um mögulega ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar benti Lilja réttilega á að sú stjórn mun hafa veikan meirihluta á þingi, aðeins einn mann. Kvaðst hún hafa áhyggjur af því þar sem stjórnmálasagan hefði sýnt að slíkar stjórnir væru oft ekki langlífar. Þá sagði Lilja að þó að það gengi vel núna þá væru ýmsar áskoranir framundan.

„Ég verð til dæmis að segja varðandi það hvernig þeir nálgast ESB, það er strax komið.. Það fóru einhverjar fréttir af stað í upphafi gærdagsins og það er strax komin einhver svona viðkvæmni bara þegar það fer aðeins að líða á daginn. Ég held að það sé alveg góðra gjalda vert að menn vilji setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu en það verður hins vegar að ríkja aðeins meiri sátt um það hvernig þú ætlar að nálgast það.“

Hún var svo spurð að því hvort hún vildi sjá ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.

„Ég myndi vilja sjá svona stjórn og hef alltaf talað þannig. Ég tel tímabært að það sé nokkuð breið stjórn á Íslandi vegna þess að ég held að við sjáum það öll að efnahagslega þá hefur okkur gengið mjög vel á síðustu árum að þá held ég svona sálfræðilega þá höfum við ekki alveg enn jafnað okkur á því efnahagsáfalli eða hruni sem átti sér stað þannig að ég held að það séu ákveðnir friðartímar sem ríkja og ég held að það væri mjög gott að hér væri stjórn sem væri mynduð frá vinstri til hægri eða hægri til vinstri,“ sagði Lilja en viðtalið við hana á Rás 2 má hlusta á í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Þjóðaratkvæði um ESB í stjórnarsáttmálanum

Stóru deilumálin í viðræðum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafa verið útkljáð. Stjórnarsáttmáli verður skrifaður í vikunni. MS verður sett undir samkeppnislög, tollar lækkaðir á hvítt kjöt og kosið um ESB




Fleiri fréttir

Sjá meira


×