Innlent

Lilja um Trump: „Við skulum sjá hvernig frambjóðandinn breytist í forseta“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir ljóst að Bandaríkjamenn hafi kosið breytingar í nótt. Henni hugnast ekki orðræða Donalds Trump en of snemmt sé að segja hvernig forseti hann muni verða.

Hún segir að íslenska utanríkisráðuneytið sé byrjað að skoða hvernig kjör nýs Bandaríkjaforseta gæti haft áhrif á Ísland og íslenska hagsmuni. Það sé þó of snemmt að koma með yfirlýsingar um hvernig orðræða hans í kosningabaráttunni muni endurspeglast í raunverulegum stefnumálum.

„Samstarf okkar við Bandaríkin skiptir okkur mjög miklu máli. Það er erfitt að ráða í stefnu hans en sumt af henni hefur ekki verið listað upp. Hins vegar hefur hann auðvitað haft ákveðin orð um Atlantshafsbandalagið og það að framlög ríkja til bandalagsins verði jafnari en nú hefur verið. Við horfum til þess og erum að meta hvaða áhrif þetta hefur á bandalagið,“ segir Lilja.

Sjá einnig: Donald Trump kjörinn forseti Bandaríkjanna

Lilja bendir á að á sínum hafi verið uppi efasemdir um Ronald Reagan þegar hann var fyrst kjörinn forseti Bandaríkjanna. Þær áhyggjur hafi ekki verið á rökum reistar.

Hún segir að sér hugnist ekki sú orðræða sem Trump hefur haft í kosningabaráttunni þar sem hann hefur meðal annars talað niðrandi um konur, múslima og Mexíkóa. Það sé þó mikilvægt að sjá hvernig hann hagi sér sem forseti.

„Okkur hugnast að sjálfsögðu ekki sú orðræða, það gefur auga leið. Við skulum samt sjá hvernig frambjóðandinn breytist í forseta og hvort að þessi orðræða breytist ekki töluvert á þeirri vegferð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×