Erlent

Líklegt að flugvélin hafi orðið bensínlaus

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Búið er að finna flugrita flugvélarinnar sem hrapaði í Kólumbíu í gær.
Búið er að finna flugrita flugvélarinnar sem hrapaði í Kólumbíu í gær. Vísir/Getty
Flugmálayfirvöld í Kólumbíu og Brasilíu rannsaka nú hvað varð til þess að flugvél með 77 farþega innanborðs hrapaði í grennd við borgina Medellin. Flugfreyja sem lifði slysið af segir að vélin hafi orðið bensínlaus.

Alls lést 71 farþegi en innanborðs í flugvélinni voru meðal annars meðlimir brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense Real og létust 19 af 22 leikmönnum liðsins. Liðið var á leiðinni að keppa við kólumbískt lið í úrslitum Suðurameríkubikars félagsliða.

Í gærkvöldi fundust flugritar vélarinnar og verið er að rannsaka þá. Í fyrstu sögðu flugmálayfirvöld í Kólumbíu að bilun í rafkerfi flugvélarinnar, af gerðinni British Aerospace 146, hafi valdið slysinu.

Einnig er verið að rannsaka hvort að flugvélin hafi orðið bensínlaus en samkvæmt frétt AP gaf flugfreyja sem lifði af slysið það til kynna við björgunarsveitir.

Þá virðast lítil sem engin ummerki um eldsvoða vera á flakinu sem þykir gefa til kynna að lítið hafi verið eftir af flugvélabensíni í flugvélinni þegar hún hrapaði, skömmu áður en hún átti að koma til lendingar í Medellin.

Þriggja daga þjóðarsorg er nú í Brasilíu vegna flugslyssins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×