Innlent

Líklega mengun í höfuðborginni í dag og á morgun

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Líklegt er að gasmengun muni berast til höfuðborgarsvæðisins frá eldgosinu í Holuhrauni síðdegis í dag og á morgun. Samkvæmt Veðurstofu Íslands er mögulegiki á að mengunar verði vart um tíma.

Styrkur brennisteinsdíoxíðs í loftgæðamælistöð í Völundarhúsum í Grafarvogi var um 480 míkrógrömm á rúmmetra um hálf fjögur í dag. Samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg er líklegt að gildi geti orðið há þar og annars staðar í Reykjavík.

Til að sjá áhrif mismunandi styrkleika gasmengunar á fólk má skoða heimasíðu Almannavarna. Fari styrkur yfir 600 míkrógrömm á rúmmetra er fólki ráðlagt að forðast áreynslu utandyra.

Skoða má kort yfir staðsetningu loftgæðamælastöðva í Reykjavík á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Þar er hægt að fylgjast með styrk brennisteinsdíoxíðs og annarra efna.

„Liturinn er grænn ef styrkurinn er undir heilsuverndarmörkum fyrir öll efni. Fari styrkur einhvers efnanna yfir heilsuverndarmörk breytist liturinn í gulan eða rauðan. Sýndur er hæsti styrkur efna á hverjum tíma,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×