Menning

Líklega er það ljóðið sem velur þig

Magnús Guðmundsson skrifar
Alda Björk með ljóðabókina sína heima í stofu, innan um bækurnar sem skipa stóran sess í lífi hennar.
Alda Björk með ljóðabókina sína heima í stofu, innan um bækurnar sem skipa stóran sess í lífi hennar. Visir/GVA
Fyrir skömmu sendi Alda Björk Valdimarsdóttir frá sér sína fyrstu ljóðabók; Við sem erum blind og nafnlaus. Bókin skiptist í fimm hluta en það sem bindur viðfangsefnin saman er að öll snúast þau um samskipti eða samskiptaleysi, um leiðir til þess að tjá mikilvæga hluti og ógöngurnar sem einstaklingurinn stendur stundum frammi fyrir þegar honum er orða vant. Alda Björk hefur tekist á við ljóðið í rúman áratug og eru elstu ljóðin í bókinni frá þeim tíma auk þess sem ljóðið og bókmenntirnar hafa alltaf skipað stóran sess í lífi hennar, allt frá barnæsku.

„Einu sinni þegar ég var svona sex ára var mamma að hlýða bróður mínum yfir Heiðlóarkvæði eftir Jónas Hallgrímsson. Ég man enn eftir áfallinu sem ég upplifði við lokalínur ljóðsins: „Alla étið hafði þá / hrafn fyrir hálfri stundu!“ Bókmenntafræðingarnir kalla þetta rómantíska íróníu og setja aðferðina í ákveðið merkingarfræðilegt samhengi. Hér skiptir þó kannski meira máli hvernig ljóðlistin nær að tala beint til tilfinninganna, milliliðalaust og án skýringa, svolítið eins og tónlistin gerir. Það er kannski galdur hennar. Sterkt ljóð getur vegið jafn þungt og raunveruleg lífsreynsla.

Ég las ljóð á íslensku sem barn og unglingur en svo fór ég smám saman að lesa meira á öðrum tungumálum. Þegar maður les ljóð þá er sérstaklega mikilvægt að lesa hægt og vera duglegur að fletta upp orðum og velta fyrir sér merkingaraukum. Jafnvel einföldustu textar geta reynst margræðir ef skimað er undir yfirborðið.“

Alda Björk lauk doktorsprófi í almennri bókmenntafræði frá HÍ á síðasta ári þar sem hún fæst einnig við kennslu innan deildarinnar. Alda Björk skrifaði ritgerðina sína um bresku skáldkonuna Jane Austen eins og hún birtist okkur í samtímanum. „Ég hef einnig skrifað um ýmsa íslenska höfunda, t.d. Hallgrím Helgason og Steinunni Sigurðardóttur. Síðustu árin hef ég jafnframt kennt innan bókmenntafræðinnar, fyrst sem stundakennari en núna sem lektor.

En málið með Jane Austen er að hún er einn áhrifamesti höfundur nútímalegrar skáldsagnagerðar, eins og sést svo vel þegar verk hennar eru borin saman við verk samtímahöfunda hennar. Vinsældir hennar í dag stafa einfaldlega af því að hún talar ennþá til okkar á svo sterkan hátt. Höfundarheimur hennar er svo einstakur, hver persóna hefur sína rödd enda er hún líklega einna frægust fyrir persónusköpunina og tilþrifin í tungumálinu og ekki má gleyma írónískri vitundinni sem litar allt. Ég held upp á afskaplega marga 19. aldar höfunda, sérstaklega skáldsagnahöfunda. Ég sæki þangað þó fyrst og femst sem lesandi og kennari og finnst gaman að skoða þennan skáldskap í nútímalegu samhengi. Í ljóðlistinni er það þó fyrst og fremst nútíminn sem talar til mín.

Stílhefðir og persónusköpun 19. aldar liggja held ég ekki nálægt mínum stíl. Ég er fremur mótuð af skáldskap 20. og 21. aldar þegar kemur að mínum eigin skrifum.“

Prósinn er Öldu Björk einnig hugleikinn þó svo að ljóðlistin hafi yfirhöndina við skrifin um þessar mundir. „Ég hef skrifað prósa meðfram ljóðagerðinni og á eftir að sjá hvort það leiðir til einhvers. Ég birti t.d. eina smásögu í Stúdentablaðinu, en hún heitir Strikamerki. Ég ákvað þó að einbeita mér fyrst að ljóðabókinni.

Ég glímdi lengi við hugmyndina þegar ég setti saman bókina um hvort ég ætti að velja eitt viðfangsefni en ákvað svo að vera með nokkur þemu sem öll tengjast á einhvern hátt. Bókin snýst um táknkerfin sem við notum, um skilgreiningar þær sem við notum bæði til þess að ná utan um lífið og ná utan um heimsmynd okkar og fólkið sem við umgöngumst. En vissulega geta þær líka snúist gegn okkur og verið snúið gegn okkur. Ljóðin fjalla um ást og sorg, um mikilvægar manneskjur sem hverfa úr lífinu, um veruleikamörk og múrana sem við reisum í huga okkar.“

Aðspurð hvað ljóðið gefi henni svarar Alda Björk brosandi: „Hingað til ekki mikið í aðra hönd, en ég á auðvitað eftir að sjá sölutölurnar. Það segir reyndar allt um ljóðlistina að svona margir skuli helga henni líf sitt í fullri vissu um að aldrei eigi þeir eftir að selja nema kannski svona þrjú, fjögur hundruð bækur, jafnvel þótt þeir nái himinhæðum í listsköpun sinni og búi í milljónasamfélagi. Stundum er því haldið fram að ljóðskáld nútímans yrki fyrir önnur ljóðskáld. En auðvitað á maður fyrst og fremst að yrkja fyrir sjálfan sig. Það er þó kannski líka út af þessu að hver lesandi vegur svo þungt í heimi ljóðsins. Svo eru íslensk ljóðskáld held ég svolítið heppin miðað við það sem gerist víða annars staðar. Ljóðið er ennþá tiltölulega sterkt á Íslandi. Þegar öllu er á botninn hvolft er það líklega bara svo að ljóðið velur þig frekar en öfugt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×