Innlent

Líklega búið að semja um þinglok

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Vísir/Eyþór
Stjórnarliðar tilkynntu á Alþingi í morgun að formenn ríkisstjórnarflokkanna séu að komast að samkomulagi um þinglok. Tuttugu og þrír dagar eru til kosninga og hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar sakað stjórnarþingmenn um að vera farnir að sinna kosningabaráttunni í stað þess að sinna störfum sínum.

„Við höfum þær fréttir að líklega sé búið að semja um þinglok og við getum farið að vinna að þeim málum sem fyrir liggja. Ég vona að það verði klárað í dag,“ sagði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks undir liðnum störf þingsins á Alþingi í morgun.

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist fagna því að formenn flokkanna séu að komast að niðurstöðu.

„Ég vil byrja á að fagna því eins og aðrir háttvirtir þingmenn að formenn flokkanna eru allavega í þann mund trúi ég að koma sér saman um það hvernig við háttum okkar störfum hér svo við getum lokið mikilvægum málum og klárað þingið,“ sagði Willum Þór.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagðist ánægð með að loks væri að fást niðurstaða í málið. „Mig langar að vera bjartsýn eins og háttvirtur þingmaður [Ásmundur Friðriksson] og vona að nú sé að fást einhver niðurstaða í það hvernig við klárum þetta þing. Nú er senn að verða liðin heil starfsvika á Alþingi þar sem við höfum starfað án nokkurrar starfsáætlunar og það gengur auðvitað ekki endalaust að við störfum þannig,“ sagði hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×