Erlent

Líkjast svolítið Dirty Harry eftir ár í starfi

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Meirihluti nýútskrifaðra lögreglunema í Svíþjóð hyggst fara í einu og öllu eftir reglum um samskipti við meinta afbrotamenn þegar þeir taka til starfa.

Eftir rúmt ár í starfi fara sumir þeirra að brjóta umgengnisreglurnar og hegða sér svolítið eins og lögreglumaðurinn í kvikmyndunum um Dirty Harry. Þetta eru niðurstöður rannsóknar við félagsfræðideild Linnèháskólans í Växjö, sem greint er frá á vefnum forskning.no.

Fylgst var með 24 lögreglunemum frá því að þeir hófu nám og eftir að þeir voru teknir til starfa. Einnig voru tekin viðtöl við lögreglumenn um hegðun starfsfélaga þeirra. Mörgum fannst framkoma starfsfélaga óþarflega harðneskjuleg gagnvart fíklum eða öðrum sem voru handteknir og grunaðir um lögbrot. Þeim sem gáfu þessi svör fannst óþægilegt að vinna við þessi skilyrði.

Það eru einkum ungir karlar í stærstu borgunum sem fara að brjóta reglurnar þegar þeir taka til starfa. Eldri lögreglumenn í litlum bæjum fylgja frekar reglunum og það gera einnig lögreglukonur.

Árni Sigmundsson, yfirlögregluþjónn og deildarstjóri grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins, segir skólann hér taka þátt í samevrópskri rannsókn um inntöku, nýnema, lögreglumenntun og starfsframa í lögreglunni. „Tilgangurinn er að komast að því hvaða þættir, ef einhverjir, einkenna þá sem hefja lögreglunám og hvort, og þá hvernig, námið og starfið breytir einstaklingum hvað varðar gildismat, viðhorf og væntingar. Rannsóknin hófst 2011 og henni er ekki lokið,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×