Lífið

Líkindi með atriði Gretu og Rússans sem spáð er sigri

Birgir Olgeirsson skrifar
Útsendari Vísis á söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, leit við á æfingu hjá Sergey Lazarev í Stokkhólmi í Svíþjóð í gær. Sergey þessi er fulltrúi Rússa í Eurovision í ár þar sem hann mun flytja lagið You Are The Only One.

Sjá einnig: Måns-áhrifanna gætir víða

Útsendari Vísis, Laufey Helga Guðmundsdóttir, segir keppnina í ár einkennast af þrennu; textaendurtekningum, einsöngvurum og sjónrænni grafík í þriðja veldi. Sergey tikkar í öll þessi box en á æfingunni í gær mátti sjá hann dansa í takt við grafík á bak við hann en athygli hefur vakið hversu grafíkin sem hann notast við er keimlík þeirri sem fulltrúi Íslendinga, Greta Salóme, notaði við flutning á laginu Hear Them Calling í Söngvakeppni Sjónvarpsins. 

Í atriði Gretu hreyfði hún sig í takt við grafík sem var varpað fram fyrir aftan hana og virtist reykský koma úr henni á einum stað. Svipað á sér stað í atriði Rússans, þó ekki alveg eins, þegar vængir virðast koma úr baki hans.

Sergey er spáð velgengni í Eurovision þetta árið og jafnvel sigri líkt og sjá má hér og hér. 

Bæði feta þau Sergey og Greta í fótspor Svíans Måns Zelmerlöw sem vann Eurovision í fyrra með laginu Heroes. Sviðsframkoma hans vakti ekki síður athygli en lagið en um var að ræða samspil manns og tækni þar sem Måns hreyfði sig í takt við grafík sem var varpað fram á LED-skjá fyrir aftan hann þannig að svo virtist sem grafíkin og Måns rynnu saman. 


Tengdar fréttir

Fyrsti dagur æfinga í Stokkhólmi: Sergey hrasaði

Eurovision dagatal grúppíunnar hefur runnið smurt í gegn síðustu mánuði. Síðasta vetur hófust undankeppnir í hverju landinu á fætur öðru og voru þær 25 talsins þar til yfir lauk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×