Innlent

Líkfundur í Laxárdal: Líkið af 19 ára gömlum Frakka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Göngufólk fann líkið í Laxárdal þann 18. ágúst.
Göngufólk fann líkið í Laxárdal þann 18. ágúst. vísir/loftmyndir.is
Kennslanefnd ríkislögreglustjóra hefur borið kennsl á líkið sem fannst í Laxárdal í Nesjum hinn 18. ágúst síðastliðinn.

Staðfest er að líkið er 19 ára gömlum frönskum ríkisborgara að nafni Florian Maurice François Cendre. Þetta kemur fram í tilkynningu frá kennslanefnd.

 

Rannsókn málsins verður framhaldið hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi.

Það var göngufólk sem gekk fram á lík Frakkans unga við Sauðdrápsgil í Laxárdal í Nesjum í ágúst.

Kennslanefnd gaf það upphaflega út að líkið væri af ungum karlmanni, um það bil 186 sentimetrar á hæð, með ljóst axlasítt hár klætt í svarta strigaskó með hvítri stjörnu á hlið, dökkbláar íþróttabuxur og hettupeysu með áletrun að framan „QUICKSILVER“.

Fram kom í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi í liðinni viku að kennslanefnd hefði kannað í samstarfi við frönsk lögregluyfirvöld hvort að líkið gæti verið af frönskum ríkisborgara sem kom hingað til lands í október í fyrra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×